144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

opinber fjármál.

206. mál
[14:28]
Horfa

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir (F):

Herra forseti. Ég vil byrja þessa tölu mína á því að þakka hæstv. ráðherra fjármála fyrir að leggja fram þetta frumvarp um opinber fjármál. Í ljósi framangreindra umræðna þakka ég sérstaklega fyrrverandi fjármálaráðherrum sem hafa komið að þessu starfi fyrir þá vinnu. Þetta hlýtur allt að hafa skilað sér í það ágætisplagg sem við höfum hérna fyrir framan okkur.

Miklar umræður hafa farið fram hérna í dag og í morgun um aðkomu þingmanna og embættismanna að því hvernig þessi vinna fer öll fram. Það sem mig langar sérstaklega að gera að umræðuefni eru breytingarnar á V. kafla laganna og sérstaklega þá 51. gr.

Þrátt fyrir góðar yfirlýsingar um að við ætlum að kenna fjármálalæsi í grunnskólum þá eru margir sem missa af því. Auðvitað erum við meðvituð um grunnhugmyndirnar um hvað fari inn og hvað fari út og við erum meðvituð um að það þurfi að vera til meiri peningar en við eyðum ef vel á að ganga.

Í þessu frumvarpi er lagt til að reikningsskil A-hluta ríkissjóðs í heild verði byggð á reikningsskilastaðli Alþjóðareikningsskilaráðsins fyrir uppgjör opinberra aðila og almennri aðlögun að honum. Því ber að fagna sérstaklega. Ég sakna þess að sjá enga fulltrúa Pírata hérna inni því að þetta snertir raunverulega mikið upplýsingagjöf ríkisins til bæði kjörinna fulltrúa og ekki síður til almennings sem hefur ákveðnar hugmyndir um það hvernig hlutirnir eiga að vera í tekjum og útgjöldum.

Það er svolítið sérstakt að koma úr viðskiptalífinu og atvinnulífinu og vera vön því að vinna með ársreikninga þar sem félög eiga að skila hagnaði og lesa síðan ársreikninga ríkisins þar sem það er ekki sérstaklega haft að leiðarljósi. — Ég þakka fyrir að fulltrúi Pírata skuli vera mættur. — Það að við séum að samþykkja að breyta reikningsskilareglum og áherslum hjá okkur gerir að verkum að miklu auðveldara verður að bera okkur saman við þær þjóðir sem við miðum okkur við, þ.e. hvernig fjármálum ríkisins sé háttað. Þetta er nákvæmlega sama og gerist á hlutabréfamarkaði í viðskiptum. Þess vegna hafa alþjóðlegir reikningsskilastaðlar verið settir þar fram svo að við getum borið saman rekstur fyrirtækja í mismunandi löndum því að við vitum að sömu reglum er beitt við uppgjör.

Það sem á raunverulega að gera í þessu frumvarpi er að draga á úr frávikum frá reikningsskilastöðlum, nokkuð sem hefur verið við lýði fram til þessa. Það snýr sérstaklega að fjárfestingum. Þetta er mjög mikilvægt atriði vegna þess að þegar ríki, fyrirtæki og einstaklingar fjárfesta lítum við á það sem eign og horfum á það til lengri tíma. En eins og þetta hefur verið útfært í ríkisfjármálum hafa fjárfestingar verið gjaldfærðar í rekstrarreikningi, sem er andstætt því sem gert er samkvæmt almennum reikningsskilareglum. Í almennum reikningsskilareglum eru fjárfestingar færðar í efnahagsreikning og afskrifaðar árlega. Þetta tel ég að verði til mikilla bóta fyrir kjörna fulltrúa og almenning í landinu þegar veitt er aðhald í ríkisfjármálum.

Það sem ég sakna aftur á móti í frumvarpinu er tímasetning á innleiðingunni. Talað er um það í greinargerðinni með frumvarpinu að gefa eigi þessu aðlögunartíma. Það er vel því að við vitum, eins og hefur komið fram í ræðum hv. þingmanna hér í dag, að breyta þarf embættismannakerfinu líka. Hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins ræddi um að líka þyrfti að breyta því hvernig fjölmiðlar tala. En með því að breyta framsetningunni og taka þessa reikningsskilastaðla upp með skýrari hætti þá munum við átta okkur betur á því um hvað þessi mál snúast.

Í greinargerð með frumvarpinu eru tilteknir þrír þættir sem þessi breyting hefur aðallega í för með sér, með leyfi forseta:

„Breytingin mun í fyrsta lagi leiða til þess að fjárfesting ríkisaðila í A-hluta í efnislegum eignum verður eignfærð í stað þess að vera gjaldfærð líkt og mælt er fyrir um í 14. gr. gildandi laga um fjárreiður ríkisins.“

Þetta þýðir að við þurfum að hugsa til lengri tíma. Þetta leiðir til þess að þær fjárfestingar sem hver og ein ríkisstjórn, með fullri virðingu fyrir því sem hefur verið gert hérna í fjölda ára, eru ekki gjaldfærðar heldur eignfærðar og afskrifaðar eins og lög og reglur gera ráð fyrir. Ég fagna því mjög að við séum að fara þessa leið.

„Í öðru lagi mun rekstur ríkissjóðs verða gagnsærri en áður og að flestu leyti samanburðarhæfur við önnur rekstrarform eins og rekstur einkafyrirtækja.“

Þetta er nákvæmlega það gagnsæi sem við viljum fá sem almennar reglur og þær hugmyndir sem meginþorri viðskiptalífsins vinnur út frá. Sú gjá sem hefur verið á milli ríkisfjármála og einkageirans í uppgjörum mun minnka.

„Í þriðja lagi verða ýmsir áhættuþættir gagnvart ríkissjóði dregnir skýrar fram en áður, svo sem ábyrgðir ríkissjóðs á einkaframkvæmdum eða skuldbindingar ríkissjóðs varðandi opinber fyrirtæki og sjóði.“

Mér finnst ég ekki þurfa að útskýra það hvers vegna þetta er svona mikilvægt. Það er þó tvennt sem við skulum sérstaklega horfa til sem verður til mikilla bóta ef þetta ágæta frumvarp verður að lögum. Verðbætur og gengisbreytingar skuldbindinga munu hafa áhrif í rekstrarreikningi A-hlutans. Þær hafa ekki haft áhrif því að þær hafa verið settar á sérstakan reikning. En núna verða einmitt verðbætur og gengisbreytingar settar þarna inn þannig að allar þær upplýsingar sem við vinnum með verða miklu skýrari.

Mig langar að vekja athygli þingheims á því hversu mikilvægt það er fyrir ríkisfjármál að draga skýrt fram áhrif fjármálagerninga sem ekki eru skráðir í efnahagsreikningi hins opinbera, svokallaða „off-balance sheet items“. Um þetta er sérstaklega fjallað í V. kafla alþjóðlegra reikningsskilastaðla fyrir uppgjör opinberra aðila. Einnig er þar fjallað um hvernig mælt er fyrir um hvernig megi birta fjárhagslegar upplýsingar um hluta tiltekinnar starfsemi ríkisaðila, svo sem um afmarkaðan hluta heilbrigðismála.

Frumvarpið kemur líka til með að gilda um sveitarfélög. Ég varð þess áskynja á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna sem haldin var í síðustu viku að uppgjörsaðferðir þeirra eru ólíkar, t.d. hvort rekstur hjúkrunarheimila sé tekinn fram í A- eða B-hluta. Þetta frumvarp á að eyða allri slíkri lagaóvissu.

Eins og áður hefur komið fram fagna ég þessu máli. Ég tel það auka meðvitund kjörinna fulltrúa á fjármálum og almennings í leiðinni því að almenningur, kjósendur okkar eiga að fylgjast með verkum okkar og dæma okkur af þeim og til þess verða þeir að hafa nægar upplýsingar. Upplýsingar munu koma til okkar á aðgengilegra og samræmdara formi en áður hefur verið.

Það eru sem sagt tvær spurningar sem mig langar að leggja fyrir hæstv. fjármálaráðherra. Annars vegar varðandi tímalengdina: Hvenær telur hann að búið verði að innleiða þessa reikningsskilastaðla að fullu? Hins vegar: Hvers vegna takmarkast eignfærslan aðeins við samneyslufjárfestingu, hvers vegna eru aðrar fjárfestingar ekki þar undir? Það er reyndar rætt um aðkomu Vegagerðarinnar en mér finnst vanta örlítið meiri rökstuðning fyrir því til að þetta nái markmiði sínu.