144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

opinber fjármál.

206. mál
[14:41]
Horfa

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég var í raun ekki að segja að ég teldi að allar opinberar eignir ættu að vera eignfærðar heldur vildi ég bara fá þessa umræðu fram. Ég treysti hv. þingmanni fullkomlega á þessu sviði. Ég er alveg fullmeðvituð um mismuninn á opinberum rekstri og einkarekstri og það er einmitt það sem ég fór inn á í byrjun, þ.e. mismuninn á þessu tvennu.

Ég held að með því að þetta frumvarp verði að lögum verði auðveldara fyrir leikmenn, kjósendur okkar, að átta sig örlítið betur á tekjum og gjöldum og eignum og skuldum ríkisins.

Það er alveg rétt varðandi markaðsvirði, auðvitað eru vegir og brýr ekki seld eða annað slíkt sem við erum að sýsla með. En ég þakka fyrir þetta innlegg hv. þingmanns.