144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

opinber fjármál.

206. mál
[15:11]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Frumvarpið er um margt til bóta og það er sérstaklega ánægjulegt að í svona frumvarpi þar sem er kallað eftir langtímastefnumótun í þessum mikilvæga lið, sem eru náttúrlega fjárlög og fjármála hins opinbera, skuli vera samstaða meðal minni hluta og meiri hluta. Síðasta ríkisstjórn hratt þessu máli af stað og sitjandi ríkisstjórn tekur upp málið og styður það heils hugar.

Ég vil koma að einu atriði sem hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir nefndi áðan sem er alveg rétt og þarf að skoða í meðferð málsins í nefndinni. Það er að ráðherra skipar þrjá menn í fjármálaráðið. Þetta frumvarp færir gríðarleg völd yfir fjármálum ríkisins frá þinginu til framkvæmdarvaldsins. Á móti kemur að það er langtímastefnumótun í þessum málaflokki, en eftirlit með þeirri stefnumótun er aftur á móti á höndum aðila sem skipaðir eru af framkvæmdarvaldinu. Það þarf að laga. Það þarf að laga það að þingið færi völdin yfir fjármálunum yfir til framkvæmdarvaldsins. Þingið verður alla vega áfram að hafa mikið eftirlit með því að farið sé eftir þessari langtímastefnu eins og ráðið á að gera. Um hlutverk fjármálaráðs segir, með leyfi forseta:

„Hlutverk fjármálaráðs er að leggja mat á hvort fjármálastefna og fjármálaáætlun fylgi þeim grunngildum sem talin eru …“ o.s.frv.

Ef fylgja á grunngildum þeirra þátta sem marka stefnuna og áætlanagerðina verður Alþingi að geta skipað þá aðila sem eiga að meta það. Ef við viljum halda eftirliti löggjafans sem á að hafa budduvaldið og framselur það vald til framkvæmdarvaldsins, ef löggjafinn heldur því mikilvæga eftirlitshlutverki, er mikilvægt að forsendum hinna nýju opinberu fjármála sem frumvarpið mun innleiða sé fylgt.

Greiðslur þeirra sem sitja í ráðinu eru ákvarðaðar af ráðherra. Ráðherra hefur því ekki aðeins vald til að skipa þá aðila í ráðið sem eiga að meta hvort verið sé að fylgja eftir þessari áætlanagerð og grunngildum sem eiga að grundvallast samkvæmt frumvarpinu, heldur útdeilir hann líka brauðinu eða fæðir þá aðila. Og við vitum að menn bíta ekki í höndina sem fæðir þá. Það er því mjög mikilvægt að því sé haldið til haga að þingið skipi þessa menn og það sé gert á þeim grundvelli að minni hlutinn geti haft eftirlit með þessu ferli.

Annars langar mig að nefna eitt annað, það er að finna í 23. gr. Þar koma fram breytingar á frumvarpi til fjárlaga, með leyfi forseta:

„Við framlagningu breytingartillagna við frumvarp til fjárlaga á Alþingi skal liggja fyrir mat á áhrifum þeirra á heildarafkomu ríkissjóðs, skuldbindingar hans og forsendur fjármálaáætlunar.“

Það er frábært að þetta sé komið inn. Ástæðan er sú að núna erum við píratar að vinna að breytingartillögu á fjárlagafrumvarpinu og skattafrumvörpunum eins og þau liggja fyrir á Alþingi. Við þá vinnu, við það að vinna okkar lögbundna hlutverk, sem er m.a. að vinna að og leggja fram breytingartillögu á þessum stærstu og fyrstu frumvörpum ríkisstjórnarinnar, höfum við hvorki aðgang að upplýsingum til þess að geta gert það né að sérfræðiþjónustu til þess að vinna það.

Fram kemur í þingsköpum að ef nefnd mælir með máli skuli fara fram kostnaðarmat. Ég hef verið að grennslast fyrir um það í þinginu hver eigi að gera það o.s.frv. Það eru nefndarritarar sem eiga að vinna þá vinnu ofan á allt sem þeir þurfa að gera. Ég vona að þetta lagist fyrst þetta er komið inn í skýran lagabálk varðandi opinber fjármál, breytingartillögur í framtíðinni, eins og segir hér: „Við framlagningu breytingartillagna við frumvarp til fjárlaga á Alþingi skal liggja fyrir mat á áhrifum þeirra á heildarafkomu ríkissjóðs, skuldbindingar hans og aðrar forsendur fjármálaáætlunar.“

Fyrst þetta er komið inn held ég að yfirstjórn þingsins geti ekki látið undir höfuð leggjast að koma á fót einhverju batteríi innan þingsins til þess að meta þessi áhrif. Þá vona ég líka að við þingmenn fáum aðgang í gegnum þetta batterí að þeim upplýsingum sem við þurfum til þess að geta lagt fram breytingartillögu. Það er náttúrlega alveg með ólíkindum að þingmenn skuli vera í þeirri stöðu að vinna að breytingartillögum og maður stendur í bréfaskriftum. Ég spurði upplýsingasvið Alþingis um málið en það gat ekki útvegað mér þær upplýsingar. Nú er ég í samskiptum við starfsmannastjóra skattamála hjá fjármálaráðuneytinu og er búinn að biðja beint um að fá upplýsingar. Starfsmannastjórinn hefur reynt að vera hjálplegur og við skulum vona að upplýsingarnar komi sem fyrst. Jafnframt er ég búinn að biðja um í gegnum efnahags- og viðskiptanefnd, sem sér um skattamálin, að fá yfirlit yfir allar þær upplýsingar sem þingmenn geta fengið og spyrja um á hvaða formi þeir geti fengið þær þegar komi að því að vinna þá vinnu, svo við höfum þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til búa til breytingartillögur við tekjuöflunar- og útgjaldafrumvörp ríkisstjórnarinnar.

Ég trúi því að með áðurnefndri 23. gr. munum við ná þessu marki, sem er með ólíkindum að skuli ekki vera gerlegt í dag.

Annars sýnist mér þetta frumvarp vera mjög gott að flestu leyti. Ég vona eindregið, og mun kalla eftir því í fjárlaganefnd, að þessum þáttum verði sinnt vel.