144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

opinber fjármál.

206. mál
[15:21]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það sem ég var að vísa hér til var ræða hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar fyrr í dag þar sem hann benti á þessar tvær greinar stjórnarskrárinnar. Ég vil vekja athygli þingmanna á hluta af greinargerð eða umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins, skrifstofu opinberra fjárlaga. Á bls. 93 í frumvarpinu kemur fram hvernig regluverkið á að breytast. Þar segir, með leyfi forseta:

Í öðru lagi er í frumvarpinu gert ráð fyrir að ráðherra leggi fram á Alþingi frumvarp til fjárlaga þar sem leitað verði heimilda til útgjalda sundurliðað eftir málefnasviðum og málaflokkum, til hvers konar skuldbindinga A-hluta ríkissjóðs. Þetta yrði veruleg breyting frá núverandi framsetningu fjárlaga þar sem fjárheimildir eru ákvarðaðar til fjárlaga einstakra stofnana og verkefna.

Eins og hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir nefndi hér fyrr í dag yrði það ekki lengur verkefni eða hlutverk eða á valdi Alþingis að taka ákvörðun um að auka fjárframlög til t.d. einstaka framhaldsskóla. Ég vil nefna Menntaskólann í Reykjavík sem á að setja lokið á og renna inn í sama mót og aðrir þriggja ára skólar hæstv. menntamálaráðherra. Það væri ekki möguleiki samkvæmt þessu að mínu viti að Alþingi gæti komið þar neitt nærri, vegna þess að þar er bara leitað heimilda. Þá er veitt heimild til þess að veita eina tiltekna fjárhæð í alla framhaldsskóla, þ.e. málaflokkinn sem slíkan eða jafnvel málasviðið, sem er jafnvel enn víðtækara. Það er grunnurinn að þessari spurningu, hv. þingmaður.