144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

opinber fjármál.

206. mál
[15:47]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nú bið ég menn að oftúlka ekki orð mín. Ég er ekki og var ekki að halda því fram að frumvarpið stangaðist á við stjórnarskrá, en það eru í því þættir sem þarf að skoða og við megum ekki láta neinn vafa ríkja í þeim efnum. Það snýr í raun og veru bæði að hinum þingræðislega eða þinglega þætti málsins hvernig frumvarpið er uppbyggt, framsett og því hvernig afgreiðsla þess fer fram. Það hefur einkum samhengi við 41. gr. stjórnarskrárinnar, vegna þess að það verður að vera nógu skýrt að fjárveitingarvaldið, og eftir atvikum fjárstjórnarvaldið, er hjá Alþingi. Allt framsal þess verður að vera nægjanlega afmarkað og skýrt og með samþykki Alþingis sjálfs þannig að ekki leiki vafi á. Það má nálgast það frá ýmsum vegum að Alþingi geti alltaf kallað þetta vald til sín ef það vill o.s.frv.

Hér er verið að fara yfir í miklu meiri rammaafgreiðslur á fjárheimildunum, nánast bara til hvers ráðuneytis. Ráðherrann fær vald til að færa til verulega fjármuni innan málaflokksins. Framsetning málsins verður þannig að sundurliðun verður sýnd í fylgiskjali sem aldrei kemur til atkvæða á þinginu sem slíkt, ég held ekki einu sinni í heild, hvað þá að þar sé borin upp lið fyrir lið hver fjárveiting sem þar með er augljóslega ákveðin af Alþingi.

Yfir það þarf að fara til þess að menn fari ekki einhvers staðar út yfir eðlileg mörk í þessum efnum. Það kann að vera að gera þurfi að einhverju leyti kröfur um öðruvísi uppsetningu frumvarpsins og framsetningu þess til þess að afgreiðsla Alþingis sé nægjanlega afdráttarlaus og skýr að bestu manna yfirsýn þannig að enginn vafi leiki á að hluti fjárveitingavaldsins eða fjárstjórnarvaldsins hafi ekki með einhverjum hætti óvart lekið út úr Alþingi.