144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

opinber fjármál.

206. mál
[16:11]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru áhugaverðar spurningar. Ég vil vekja athygli á því að frumvarpið skilur eftir gríðarlega mikið svigrúm, pólitískt, til að breyta um áherslur í opinberum fjármálum, bæði fyrir tekjur og útgjöld. Það er ekkert sem kemur í veg fyrir það, svo lengi sem menn eru ekki að stafla og safna upp skuldum og eru ekki yfir skuldaviðmiðunum að auka útgjöldin með til dæmis stóraukinni skattheimtu, svo lengi sem nýja skattheimtan og útgjaldavöxturinn mundi teljast sjálfbær og varlega væri farið.

Ég hef mátað þessi nýju viðmið við frumvarpið eins og það liggur fyrir núna fyrir þinginu, já, ég tel að það standist nýju viðmiðin ágætlega við fjárlagafrumvarpið fyrir næsta ár, enda er bæði verið að greiða niður skuldir og skila hallalausum fjárlögum.

Hins vegar þegar við (Forseti hringir.) horfum aftur til efnahagsáfallsins fannst mér mjög áhugavert að skoða hvort við hefðum staðist reglurnar þá, og ljóst er að við hefðum þá þurft að nota öryggisventilinn og óska eftir heimild til þess að uppfylla reglurnar, ekki tímabundið vegna sérstakra áfalla.