144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

opinber fjármál.

206. mál
[16:15]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi fyrra atriðið um svigrúmið sem á að skapa þá gefur reglan svigrúm til þess að skila fjárlagafrumvarpi með um 50 milljarða halla, en hún leggur líka kvöð á að skila heildarjöfnuði yfir fimm ára tímabil.

Ég er nokkuð sammála niðurstöðu hv. þingmanns um regluna. Ég tel að við höfum gott af því að hafa hana, en ég get ekki tekið undir að æskilegra hefði verið að hafa hana aðeins rýmri einmitt vegna þess að það er öryggisventill í þessu. Mér finnst rétt að tekin sé sérstök umræða um það ef ekki á að uppfylla regluna, það sé rætt og menn séu ófeimnir að taka það inn í þingið og ræða, afgreiða það hér, hvort þær aðstæður séu uppi sem krefjast þess að menn víki tímabundið eða í allt að tvö ár, eins og reglan gerir ráð fyrir, frá þessum almennu viðmiðum.

Varðandi hitt er það alveg rétt að þessi breyting á reikningsskilunum mun leiða til þess að þar sem fjárfestingar eru eignfærðar þarf sömuleiðis að afskrifa þær og þá verður það orðið nokkuð gegnsætt, ef ný fjárfesting er lægri en afskriftaliðurinn erum við að ganga á innviðina í ákveðnum skilningi. Ég held að það sé ekki svo slæmt að það komi fram, að það sé dregið fram tölulega. Hversu mikil áhrif við eigum síðan að láta það hafa á umræðuna um afkomu komandi árs er síðan annað álitamál og ekki gott að segja hvort sú umræða verður alltaf skynsamleg. En í öllu falli leiðir þetta til þessa og við erum þá komin með ákveðinn mælikvarða sem verður þó ekki nákvæmari en undirliggjandi reikningar, að menn séu þá að reikna af einhverju raunvirði eignastabbann og þar með afskriftirnar á honum og að afskriftatímabilið sé (Forseti hringir.) hæfilegt og sanngjarnt, eðlilegt, raunsætt. Að öllu þessu gefnu fáum við þarna ágætismælingu á það hvort við séum að ganga á innviðina (Forseti hringir.) og ýta á undan okkur fjárfestingu eða að stunda næga fjárfestingu.