144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

opinber fjármál.

206. mál
[16:19]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki með í kollinum nákvæmt svar við spurningunni sem snertir uppsafnaða fjárfestingarþörf. Mér finnst hins vegar afar ólíklegt að hún geti gjaldfærst með einhverjum hætti. Við sjáum fyrir okkur eitthvert vanþróað ríki sem ætlar að taka upp þessa staðla. Það mundi byrja í gjörsamlega vonlausri stöðu, jafnvel þótt ríkisfjármálin væru í ágætisjafnvægi. Ég held því að það geti ekki verið að uppsafnaða fjárfestingarþörfin, sem er í raun og veru aðeins það sem við mundum gjarnan vilja hafa gert fram til þessa, verði okkur til trafala í þessu. Ég held að þetta verði meira spurning um að meta eignastabbann sem við erum með í höndunum, hvernig hann rýrnar yfir tíma og bera það svo saman við fjárfestinguna sem á sér stað á hverju ári og árunum inn í framtíðina og fá þannig út eitthvert jafnvægi í því hvort við erum að halda í horfinu eða styrkja innviði landsins eða ganga á þá.