144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

opinber fjármál.

206. mál
[16:20]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fjármálareglurnar sem eru settar fram í þessu frumvarpi eru nokkuð strangar. Ég vil taka fram að mér fannst til bóta að setja inn reglur í frumvarpið, en auðvitað þurfum við að taka umræðu um það hvernig þær eiga að líta út. Þegar við fórum yfir umsagnir þegar frumvarpið var lagt fram á síðasta þingi töluðu sveitarfélögin um það og kvörtuðu undan því að ekki hefði verið haft nægilegt samráð við þau um þessar fjármálareglur, þau væru nýbúin að gangast undir nýjar reglur sjálf og fara í gegnum ýmsar breytingar hvað það varðaði. Þau kvörtuðu undan samráðsleysi og fannst ekki sniðugt að það væri að koma önnur regla núna.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi farið í viðræður við sveitarfélögin áður en hann lagði frumvarpið fram að nýju og hvort það hafi verið samkomulag að halda þessu svona, lítið breyttu eða óbreyttu, mér sýnist þetta vera óbreytt. Ég bið hann að fara yfir samskipti við sveitarfélögin hvað þetta varðar og svara því hvort þar hafi verið einhver málamiðlun eða hvort sveitarfélögin hafi sætt sig við að gangast undir enn aðra fjármálareglu.