144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

opinber fjármál.

206. mál
[16:22]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að það sé ágætissamstaða um þá útfærslu sem hér er, hún er fengin að viðhöfðu ítarlegu samráði við sveitarfélögin. Því er ekki að leyna að sveitarfélögin höfðu vissar áhyggjur af því að verið væri að setja tvöfalda fjármálareglu, en þegar betur er að gáð er ljóst að hér er ríkið fyrst og fremst að setja á sig nýja fjármálareglu. Fjármálareglan fyrir sveitarfélögin stendur síðan alveg sjálfstætt og um það er að ræða að í þeim tilgangi að báðir aðilar, sveitarfélögin og ríkið, hafi heildaryfirsýn yfir það sem er að gerast á vettvangi hvors annars sé komið á samráðsvettvangi, samtali, á hverju ári um það hvar menn standa. Þetta er ekki að tilefnislausu. Þetta er meðal annars vegna þess að fyrir fall bankakerfisins, þegar hér varð allt of mikill viðskiptahalli og spenna í hagkerfinu, var það þannig að á sama tíma og Seðlabankinn var að keyra vexti upp yfir 10% markið og ríkið var aðeins að reyna að draga úr fjárfestingu var hún á fullri ferð hjá sveitarfélögunum. Ég er ekki að segja að það eigi að skella allir sökinni á sveitarfélögin, en það er a.m.k. ljóst að ekki var verið að toga í sömu átt. Af þeirri ástæðu höfum við reynt að hnýta þetta saman í þessu frumvarpi og annars staðar erum við síðan að skapa vettvang, eins og t.d. með fjármálastöðugleikaráði, til þess að tryggja betri heildaryfirsýn yfir það sem er að gerast og miða aðgerðir við þá niðurstöðu.