144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

viðvera heilbrigðisráðherra í umræðu um sölu áfengis.

[16:27]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég geng út frá því að áfengisfrumvarpið sé næst á dagskránni. Svo mun vera. Ég spyr: Hvert er gildi 1. umr. um þingmál? Það er fólgið í því að þingmönnum gefst þá tækifæri til að viðra almenn sjónarmið sem tengjast þingmálinu og kalla fram sjónarmið annarra þingmanna og ríkisstjórnar þess vegna.

Í þessu tilviki hefur verið kallað sérstaklega eftir því að við fáum viðræðu við hæstv. heilbrigðisráðherra um þetta tiltekna mál áður en það fer til þingnefndar þannig að hann geri opinberlega grein fyrir sjónarmiðum sínum.

Hann hefur undirritað plagg sem hann hefur birt á vef Stjórnarráðsins þar sem fram kemur að þetta frumvarp stríði gegn þeirri stefnu sem stjórnvöld hafa markað. Við viljum fá að heyra (Forseti hringir.) áður en málið fer til þingnefndar hver sjónarmið hæstv. ráðherra eru. Ég furða mig á því að þingið og stjórn þingsins skuli setja þetta mál á dagskrá (Forseti hringir.) án þess að hæstv. heilbrigðisráðherra sé hér til staðar.