144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

viðvera heilbrigðisráðherra í umræðu um sölu áfengis.

[16:33]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég minni á og ítreka að þessi ósk er ekki nýframkomin við umræðu hér, bæði í gær þegar ég var á forsetastóli og einhverjum dögum áður settu þingmenn fram þá ósk að hæstv. heilbrigðisráðherra kæmi til umræðunnar svo að hægt væri að eiga orðastað við hann um þá þætti þessa máls sem að honum snúa og eru stórir.

Mér finnst þetta málefnaleg og sanngjörn krafa. Það er nokkur vandi á höndum að keyra umræður áfram um þetta mál dag eftir dag án þess að tryggja að aðstæður séu til þess að hæstv. heilbrigðisráðherra sé viðstaddur eða komi að minnsta kosti og sé við einhvern hluta umræðunnar. Reyndar finnst mér að bæði hæstv. heilbrigðisráðherra og hæstv. velferðarráðherra ættu að blanda sér í þessar umræður þannig að við gætum rætt við þau um það sem að þeim snýr í þessum efnum.

Ég veit að hæstv. heilbrigðisráðherra hafði ekki aðstöðu til þess að vera við umræðuna í gær þar sem hann var erlendis, en þá sýnist mér einboðið að halda ekki áfram þessari umræðu fyrr en ráðherra er kominn til landsins og getur verið viðstaddur.