144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

viðvera heilbrigðisráðherra í umræðu um sölu áfengis.

[16:34]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Eins og hér kom fram mun hæstv. heilbrigðisráðherra hafa verið staddur erlendis í gær og eftir því sem ég best veit er hann ekki enn kominn til landsins. Þess vegna sætir furðu í mínum huga að þetta mál skuli hafa verið sett á dagskrá núna eftir að fram hafa komið óskir um að ráðherra verði hér viðstaddur. Tvívegis hefur það verið sagt úr forsetastóli að reynt yrði að sjá til þess að hæstv. heilbrigðisráðherra yrði við umræðuna áður en málið færi til nefndar, til umfjöllunar þar.

Það er enginn að reyna að koma í veg fyrir að þetta mál fái eðlilega þinglega meðferð. Að sjálfsögðu mun þetta mál ganga til nefndar þegar þar að kemur. Þetta er hins vegar einföld ósk og málefnaleg.

Ég mælist til þess að málið verði tekið af dagskrá þar til hæstv. heilbrigðisráðherra (Forseti hringir.) á kost á því að sækja þingfund þar sem þetta verður rætt.