144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

viðvera heilbrigðisráðherra í umræðu um sölu áfengis.

[16:36]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Mér þykir svolítið undarlegt að hingað komi hver stjórnarandstöðuþingmaður á fætur öðrum upp í pontu til að segja sama hlutinn. Þetta virkar á mig eins og hvert annað málþóf en allt í lagi, ég er ekkert á móti málþófi.

Mér er óskiljanlegt hvernig þetta getur aðallega verið lýðheilsumál þar sem spurningin er hvort einhverjar örfáar fleiri búðir á höfuðborgarsvæðinu muni selja áfengi eða ekki. Ég gæti skilið þetta ef það væri spurning um að byrja að selja áfengi sem aldrei hefði verið selt hérna og fara að ræða það við heilbrigðisráðherra. Mér finnst miklu nær að kalla hér til viðskiptaráðherra. Málið snýst fyrst og fremst um viðskipti, um einokun og samkeppnismál jafnvel. Hugsanlega mætti kalla umhverfisráðherra hingað af því að það er svo mikið drasl sem fylgir þessu máli. Við getum alveg haldið þessari umræðu áfram þó að heilbrigðisráðherra sé ekki hér enda snýst þetta ekkert um það.