144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

viðvera heilbrigðisráðherra í umræðu um sölu áfengis.

[16:41]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er ákaflega gagnlegt fyrir okkur að fá leiðsögn frá hv. þm. Brynjari Níelssyni, ekki síst þeim okkar sem erum reynslulítil hér og höfum gott af því að fá reyndan skörung eins og lögmanninn og hv. þm. Brynjar Níelsson til að leiðbeina okkur.

Að sjálfsögðu má hæstv. viðskiptaráðherra gjarnan koma hingað og þess vegna hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sem lögin heyra reyndar undir því að áfengis- og tóbakseinkaverslunin heyrir undir fjármálaráðherra.

Fyrirkomulagið er grundvallað á heilbrigðis- og lýðheilsustefnu landsins. Ég held að enginn geti deilt um það. Ástæðan fyrir því að við og þrjú önnur Norðurlönd erum með ríkiseinkasölu á áfengi og tóbaki er sú að þetta er hluti af heilbrigðis- og lýðheilsustefnu þessara landa. Þannig er það forsvarað, þannig er það kynnt bæði inn á við og út á við. Þannig vörðust og börðust þessi lönd fyrir því að fá undanþágu í EES-samninginn eða í aðildarsamning sinn að ESB af því að þau væru að verja (Forseti hringir.) hluta af lýðheilsu- og heilbrigðisstefnu sinni með þessu skipulagi.

Þess vegna á heilbrigðisráðherra að mæta hingað.