144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

viðvera heilbrigðisráðherra í umræðu um sölu áfengis.

[16:42]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Mér þykir illa vegið að virðulegum forseta sem hefur staðið sig mjög vel í sinni fundarstjórn. Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, svo við bara tölum um hlutina eins og þeir eru, að þetta er æðisérkennilegt. Hér er þingmannamál sem er búið að flytja margoft, sjálfur hef ég flutt þetta mál, og svo fara menn allt í einu fram á það í fullri alvöru að hæstv. ráðherrar séu við umræðuna. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Af hverju segir hann það bara ekki sjálfur? Þeir eru í málþófi hérna í 1. umr. sem er algjörlega ótrúlegt. Ef menn telja sig hafa góð rök gegn þessu máli er hér tækifæri til að koma fram með þau en það er út í hött að kalla á hæstv. ráðherra sem aldrei hefur verið gert þegar málið hefur verið flutt. Ég fullyrði að það hefur ekki verið gert vegna þess að ég hef flutt þetta mál. Reyndar þurfti ég að toga hv. þingmenn inn í þingsal til að taka umræðuna við mig. Hér eru menn búnir að tala í marga daga og eru í fullri alvöru að fara fram á það að hæstv. ráðherrar mæti á svæðið þegar við erum að ræða þetta þingmannamál.

Virðulegi forseti. Menn eiga bara að segja það. Þið eruð í málþófi (Forseti hringir.) sem er ótrúlegt. (Gripið fram í.)