144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[16:45]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak, lögum um aukatekjur ríkissjóðs, áfengislögum og lögum um gjald á áfengi og tóbaki, með síðari breytingum, sem hér hefur verið rætt nokkuð ítarlega nokkuð lengi.

Ég stundaði nám í Þýskalandi í átta ár á sínum tíma, það er mjög langt síðan, og þar var selt áfengi í versluninni á horninu, lítilli verslun. Ég hafði alltaf jafn gaman af að fara með Íslendinga sem komu í heimsókn niður í verslunina og sjá svipinn á þeim þegar þeir sáu hvítvín og rauðvín og svo líka sterk vín, viskí, vodka o.s.frv., við hliðina á mjólkinni. Það kom alltaf dálítið skrýtinn svipur á Íslendinginn.

Ég bjó þarna eins og ég segi í átta ár og ég sá einu sinni drukkinn mann á götu í Köln. Ég hafði hins vegar búið í Reykjavík lengi og um helgar var hér — ég ætla ekki að lýsa því. Það dugar fólki enn að fara niður í bæ um helgar því að lítið hefur breyst nema það er kannski ekki alveg eins mikið af bráðungu fólki að drekka, ég meina börn.

Af þessu varð ég dálítið hugsi. Stundum hugsa ég um hluti sem ég skynja og sé og ég velti fyrir mér hvernig standi eiginlega á þessari skrýtnu afstöðu Íslendingsins sem drekkur þótt hann sé langt undir þeim aldri að mega drekka. Mikið drukkið fólk er á götum en í Þýskalandi virðist afstaðan miklu afslappaðri og fínni. Þetta er bara eins og hver önnur vara.

Mín niðurstaða varð sú, ég veit ekkert hvort hún er rétt, að á Íslandi og í nágrannalöndunum séu þetta eins konar trúarbrögð. Menn ganga inn í musteri ríkisins þar sem selt er áfengi. Þangað fer maður inn með helgisvip, maður kaupir einhverja vöru og hún er sett í brúnan poka. Af hverju, herra forseti? Það er til að menn sjái ekki hvað er í pokanum. Það er þvílíkur helgiblær á þessari vöru að hún skal sett í brúnan poka til að hún blindi væntanlega ekki þá sem horfa á. Skoðun mín er sú að menn séu búnir að búa til trúarbrögð í kringum þessa vöru og menn meðhöndli enn þá áfengi með þessum hætti þó að ýmislegt hafi breyst eftir að áfengisverslunin kom inn í stórmarkaðinn og annað slíkt, eins og er til dæmis í Kringlunni sem er kaupmaðurinn á horninu hjá mér. Þar er áfengisverslun og maður gengur þar inn en engu að síður hefur hún annan afgreiðslutíma og yfir henni hvílir ákveðinn helgiblær.

Í umræðunni hafa menn sagt hitt og þetta. Menn tala um heilbrigðismál, heimta hingað ráðherra til að hjálpa löggjafanum að setja lög, heimta sem sagt framkvæmdarvaldið til að hjálpa okkur að setja lög. Auðvitað fer málið til nefndar og sú nefnd mun væntanlega senda það til umsagnar. Hún gæti sent það til heilbrigðisráðuneytisins til umsagnar eða eitthvað svoleiðis til að vita hvað er að gerast með þessa grein á heimasíðu ráðuneytisins.

Jafnvel heilbrigðismál eru ekki alfarið í höndum ríkisins. Það eru til heilbrigðisstofnanir í einkarekstri. Það er ekki meiri helgiblær á heilbrigðisþjónustunni en það að menn treysta öðrum en opinberum starfsmönnum til að höndla hana.

Svo erum við með apótek sem höndla, eins og ég hef sagt í andsvari fyrr í umræðunni, með miklu hættulegri vörur. Það eru ópíöt sem eru þar undir mjög ströngu eftirliti, reyndar opinberu eftirliti með einkaaðilum, og ég veit ekki betur en að menn séu ekkert að hætta við það. Það virðist ganga ágætlega og starfsmenn í apótekum eru ekki opinberir starfsmenn. Ég veit ekki til þess. Það er löngu búið að leggja af Lyfjaverslun ríkisins og það eru einkaaðilar sem sjá um þetta og virðist ganga ágætlega.

Í eina tíð þegar ég var ungur voru fiskbúðir og mjólkurbúðir, menn þurftu fyrst að fara í fiskbúðina, svo í mjólkurbúðina og svo í nýlenduvöruverslunina. Þetta voru endalaus hlaup til óhagræðis og það er enn í dag varðandi áfengið. Menn skulu fara í sérstaka verslun, kaupa fyrst í matinn og fara svo í musterið og kaupa rauðvín með matnum eða fara fyrst í musterið og svo í matvöruverslunina. Þetta er eintómt vesen fyrir hinn venjulega borgara ef hann hefur áhuga á að fá sér rauðvín með matnum sem ekki allir hafa.

Raunveruleikinn er einhvern veginn algjörlega úr takti við það sem við erum að ræða hérna. Það eru víst einhverjir unglingar sem byrja í eiturlyfjum mjög ungir, skilst mér. Það er algjörlega bannað með lögum. Svo er unglingadrykkja. Síðan er meira að segja furðulegt fyrirbæri sem heitir landi. Það er verið að selja landa og heimagert áfengi burt séð frá öllum heilbrigðisreglum. Það er enginn sem tékkar á því að landi sé framleiddur við heilsusamlegar aðstæður eða að hann sé hættulaus enda hefur komið fyrir að hann sé bara stórhættulegur. Samt er þetta til staðar.

Hvað eru menn að tala um hérna? Það mega ekki aðrir en opinberir starfsmenn selja áfengi. Þetta er ótrúlegt þegar maður horfir á veruleikann. Ég bendi á að hjá þeim sem selja eiturlyf, brennivín og landa er opið allan sólarhringinn og þar er heimsendingarþjónusta og skattfrelsi. Það er dálítið hættulegt. Það er töluvert mikil rekstraráhætta en það er skattfrelsi.

Menn hafa kallað hér eftir heilbrigðisráðherra til að fá aðstoð frá framkvæmdarvaldinu til að setja lög og tala um þetta sem heilbrigðismál. Menn hafa fært fyrir því rök. Jú, jú, það er mikið um að menn fari sér að voða með því að drekka of mikið áfengi og sérstakar heilbrigðisstofnanir sinna því að lækna það fólk sem fer sér að voða með því að drekka of mikið áfengi vegna þess að áfengi er fíkniefni nákvæmlega eins og eiturlyf, tóbak og annað slíkt.

Það er svo merkilegt að þessar heilbrigðisstofnanir eru hálfpartinn einka. Þar vinna ekki opinberir starfsmenn við að leysa heilbrigðisvandann þannig að þetta er allt saman einhvern veginn út og suður. Af hverju þurfum við opinbera starfsmenn til að afgreiða brennivín þegar við þurfum ekki opinbera starfsmenn til að lækna það? Mér finnst umræðan ekki rökrétt. Þetta eru trúarbrögð, þetta er nefnilega musteri sem við förum inn í.

Það þarf að ræða viðskiptin. Um 600 manns vinna hjá ÁTVR í 270 stöðugildum og ef af þessu yrði flyttist nokkuð stór hluti af þeim inn í verslunina og yrði þar væntanlega til ráðgjafar. Einhvers staðar kemur fram hagræðing vegna þess að verslanirnar eru að selja margt annað og þeir opinberu starfsmenn sem verða starfsmenn verslunarinnar gætu sinnt því að selja kartöflur og annað slíkt þegar lítið er að gera í að selja áfengi. Það er eflaust mikil hagræðing í þessu fyrir utan þau þægindi fyrir borgarana að geta farið á einn stað og keypt sér þessa vöru eins og hinar vörurnar.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði í umræðunni að þetta væri græðgisvæðing. Hann er mjög upptekinn af því orði. Ég minni á að græðgi er sama og gróði, gróði er sama og gróður og er að stofni til jákvætt orð en er í munni hv. þingmanns örugglega ekki hugsað sem jákvætt orð. Og það er spurning hver græðir. Eru það flutningsmennirnir sem flytja þetta mál? Eru þeir á mála hjá einhverjum? Ætli það væri ekki ég, herra forseti? Ég vil samt undanskilja mig, ég græði ekkert á þessu og ég drekk voðalega lítið áfengi þannig að ég græði ekki einu sinni á því. Jú, það er viss gróði hjá mér að geta labbað beint inn í eina verslun og keypt þetta dót allt saman, þá sjaldan ég fæ mér vín með mat. Það er mjög sjaldan, herra forseti, þannig að ég sé ekki hver það er sem græðir. Jú, það getur verið verslunin sem græðir. Hv. þingmaður hefur sagt það. En er ekki ÁTVR líka að græða? Fær ekki eigandi ÁTVR alveg feiknarlegan hagnað af gróðanum? Ég sé ekki hvort það er verra að þessi græði eða hinn. Ríkið er í alls konar rekstri þar sem það ýmist græðir eða tapar þannig að ég sé ekki að þetta sé nein græðgisvæðing.

Svo er eins og menn haldi að þegar þetta verði komið inn í matvöruverslun rjúki fólk til eins og viljalaus lýður og kaupi áfengi alveg villt og galið. Hafa hv. þingmenn ekki komið til Þýskalands? Hafa þeir ekki komið inn í venjulega matvöruverslun? Ruku þeir allir út með hendurnar fullar af brennivíni? Því get ég ekki trúað. Það er töluvert dýrt og svo er þetta ekkert sérstakt. Þetta er ekki sú sérstaða sem menn tala hér um að það þurfi endilega opinbera starfsmenn til að afgreiða brennivín, léttvín og annað slíkt þannig að ég fellst ekki á þau rök.

Í umræðunum finnst mér töluvert hafa verið talað niður til okkar sem flytjum þetta frumvarp. Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir sagði í gær, held ég, að hún vonaðist til þess að við mundum vitkast, herra forseti. Ég ber virðingu fyrir skoðunum hv. þingmanns en mér dettur ekki í hug að segja að hún eigi að vitkast. Hún sagði að það þyrfti að afrugla flutningsmennina. Ég hef aldrei nokkurn tímann sagt að það þyrfti að afrugla hv. þingmann þótt ég sé ekki sammála skoðunum hennar. Ég ber virðingu fyrir þeim engu að síður.

Ég óska eftir því að þetta mál fái málefnalega umræðu og lendi ekki í einhverju málþófi, að því verði vísað til nefndar, fái þar umsagnir, nefndin ræði það í hörgul og afgreiði það svo út og við samþykkjum það sem lög. Það vona ég að verði sem allra fyrst.