144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[16:58]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það voru að sjálfsögðu mikilvægar upplýsingar að hv. þingmaður hefði numið í Þýskalandi og fengið þangað í heimsókn Íslendinga sem hefðu haft ákaflega gaman af því að fara í búðir og sjá áfengi við hliðina á mjólk. Það eru einnig mikilsverðar upplýsingar að hv. þingmaður hafi aðeins einu sinni á átta árum séð drukkinn mann í Þýskalandi. Ég gef mér þá að hann hafi nú ekki farið á Oktoberfest í Bæjaralandi. Síðast þegar ég athugaði drukku Þjóðverjar talsvert meira af áfengi mælt í hreinum lítrum af vínanda á mann en við Íslendingar.

Síðan talaði hv. þingmaður um að þeir sem styddu þetta fyrirkomulag væru með trúarbragðalega nálgun að því máli. En hvar liggja trúarbrögðin hér? Gæti það ekki verið trúarbragðalegt að vilja breyta fyrirkomulagi sem hefur gefist svo vel að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin mælir sérstaklega með því við aðrar þjóðir að þær fylgi fordæmi Norðurlandanna fjögurra og þeirra fylkja í Kanada og Bandaríkjunum sem hafa sama fyrirkomulag, einfaldlega vegna þess að ítarlegar rannsóknir og kannanir hafa sýnt að þetta hefur gefið góða raun? Er það þá ekki dálítið trúarbragðakennt að vilja samt breyta því? Af hverju? Út á einhverjar frelsiskreddur, að frelsið snúist þá um það að, og þá er ég kominn að því þriðja, verslunin megi græða á áfengi, það sé eitthvert ónotalegt frávik ef samfélagið velur þetta fyrirkomulag af því að það hefur gefist vel, það bara megi samt ekki af því að einkaverslunin skuli fá að höndla með þetta og græða á því.

Það er stærsti einstaki þáttur þessa máls, ágóðaþátturinn í verslun með þessa vöru sem er aftengdur í ríkiseinkasölunni en bullar upp og er líklegur til að ýta verulega undir neyslu þegar einkarekin verslun á orðið þann möguleika að auka hagnað sinn með því meðal annars að selja meira áfengi og nota áfengi til að auka sölu á öðrum vörum.