144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[17:07]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður kom inn á mjög athyglisverða þætti, drykkjumenningu og hvernig menn neyta áfengis. Menn geta neytt nákvæmlega jafn mikils magns af áfengi með annars vegar hörmulegum afleiðingum og hins vegar með engum afleiðingum eftir því hvort þeir drekka þetta allt saman yfir helgi eða dreifa því á tvær, þrjár vikur.

Það er rétt að drykkjumenningin er mismunandi.

Varðandi aðgengið held ég að það muni ekkert aukast mikið og fyrir utan það held ég að sú afhelgun áfengis sem felst í því að hætta að hafa það í sérstöku musteri geri það að verkum að það verði ekki lengur eins spennandi. Menn kaupa ekki eins mikið í einu eins og þegar þeir gera sér ferð í áfengisverslunina og þar af leiðandi verður drykkjan enn betri.

Ég tek undir og ætla að endurtaka það að ég er mjög hlynntur því að hafa forvarnir, aftur forvarnir og aftur forvarnir. Það er það sem hefur sýnt sig að hafa minnkað tóbaksnotkun unglinga og barna og allra Íslendinga. Ég hugsa að það gæti líka orðið til þess að minnka notkun manna á áfengi, hvort sem opinberir starfsmenn afgreiða það yfir búðarborðið eða einkaaðilar.