144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[17:08]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Eins og við erum greinilega sammála um brjótast vandamál áfengisneyslu út á misjafnan hátt eftir því hvernig þess er neytt, jafnvel hvers vegna þess er neytt. Það er munur á því að fá sér rauðvín með matnum og því að drekkja sorgum sínum með því. Það hefur aðrar afleiðingar, enda er þetta efni sem hefur mikil áhrif á andlegt fas.

Þótt það dragi kannski úr fylliríunum, ég reyndar tel það eiginlega tvímælalaust draga úr fylliríunum og bandvitlausri áfengisneyslu að setja þetta í búðir, hef ég þó áhyggjur af því að þetta muni auka langtímaneyslusjúkdóma, eins og skorpulifur, krabbamein og annað eins. Ég velti fyrir mér viðhorfum hv. þingmanns. Er hann sammála því að þetta muni til lengri tíma sennilega setja aukinn þrýsting á heilbrigðiskerfið þegar kemur að langtímasjúkdómum?

Fyrir mér er það kannski bara fórnarkostnaður fyrir það að losna við fylliríin að einhverju leyti en ég velti fyrir mér sjónarmiðum hv. þingmanns í þeim efnum.