144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[17:09]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki þeirrar skoðunar að þessi breyting ein og sér muni auka langtímavanda af áfengi. Ég held að það sé alveg jafn mikil hætta á því að menn ánetjist áfengi þar sem þeir fara inn í musterið og kaupa þrjár, fjórar flöskur í einu af því að þeir eru komnir þangað eða hvort þeir kaupa eina flösku í matvöruverslun. Ég hugsa að það sé frekar minni hætta þar en í áfenginu en við getum unnið gegn þessu með forvörnum, með því að upplýsa fólk einmitt um hættuna á skorpulifur og hættuna af langtímadrykkju, um hættuna af því að það renni ekki almennilega af fólki. Það er nefnilega stórhættulegt.

Ég mundi sem sagt vilja leggja verulega mikla áherslu á forvarnir.