144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[17:14]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef ekki kunnáttu til að halda neinu stífu fram í þessu efni en þó þykist ég hafa lesið það einhvers staðar að stöðug áfengisneysla, eins og tíðkast í Frakklandi t.d. þar sem léttvíns hefur verið neytt og það verið hluti af daglegum neysluvenjum fólks, hafi áhrif á heilsufar og þar á meðal skorpulifur sem er landlægur sjúkdómur í því landi. Ég kann ekki að ræða það af neinu viti en ég legg til að þegar við erum að halda svona löguðu fram reynum við að styðjast við rannsóknir og það sem best er vitað um þessi mál.

Hvort það hafi einhver áhrif á neysluna að færa útsöluna úr 12 verslunum á þéttbýlissvæðinu á suðvesturhorninu yfir í a.m.k. 50–70 verslanir, ef við tökum bara stórverslanirnar, miklu fleiri ef allar verslanir koma til sögu, vil ég spyrja hv. þingmann: Ef þetta skiptir engu máli, (Forseti hringir.) hvað finnst honum um þær takmarkanir sem lagðar eru til í frumvarpinu um að hætta að selja áfengi klukkan átta að kvöldi eða aðrar takmarkanir sem gerðar eru, (Forseti hringir.) fyrst hv. þingmaður er svona upptekinn af frelsinu?