144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[17:17]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Velferðarnefnd Norðurlandaráðs fór í vandaða og umfangsmikla vinnu í þessum málaflokki fyrir ekki svo löngu, en þar voru skoðuð meðal annars gögn frá vísinda- og rannsóknaraðilum sem best til þekkja og eru óháðir áfengisframleiðendum. Vinnan skilaði sér í nefndartillögu sem Norðurlandaráð samþykkti. Tillöguna má lesa í skýrslu frá Norðurlandaráði frá árinu 2012.

Tillagan varð með þessu opinber stefna Norðurlandaráðs og er þess vænst að norræn ríki fylgi henni. Þar er ótvírætt sýnt fram á að aðgengi skiptir miklu máli hvað varðar neyslu, þar með talið neyslu ungmenna. Einnig er talið að forvarnir skipti því miður minna máli en menn hafa haldið almennt. Það sem sagt er skipta mestu máli er þetta: Álagning, skattar á áfengi, áfengisverslun ríkis, aldurstakmörk, takmarkað aðgengi, þ.e. takmarkað af fjölda útsölustaða eða opnunartíma, bann við beinni og óbeinni markaðssetningu, mörk gagnvart akstri undir áhrifum og ráðgjöf í heilsugæslu og öflugri meðferð þeirra sem eru háðir áfengi.

Í skjalinu eru einnig upplýsingar um hve flókið er að eiga við lobbíisma stóru fyrirtækjanna, en þar bendir velferðarnefnd Norðurlandaráðs á að nýir tímar kalla á nýjar ráðstafanir sem verður að samræma áfengisstefnuna við, en á Norðurlöndum, bæði á landsvísu og innan sveitarfélaga, hefur komið fram vaxandi þrýstingur vegna átaka við alþjóðaviðskiptastefnu þar sem margir hverjir vilja líkja áfengi við sjálfsagða vöru, svo sem og mjólk og brauð, og erfitt sé orðið að stýra markaði með áfengi og ná fram óháðum rannsóknum þar á vegna umfangs framleiðsluaðila og valds þeirra á viðskiptalífinu, og það ógni baráttunni gegn áfengisnotkun.

Hér hafa margir komið fram og lýst því yfir að þessi vara sé einmitt eins og hver önnur sjálfsögð vara. En áfengi er efni sem við þurfum að halda forvarnastarfi gegn, við þurfum að halda úti fræðslu um efnið og fólk þarf að velja á lífsleiðinni: Ætla ég að nota áfengi eða ekki? Það er ekkert ómissandi eða sjálfsagt við áfengið. Sú sem hér stendur neytir áfengis og sér ekki galla á því að ákveða þurfi með dags fyrirvara hvort hún ætlar að fá sér rauðvín með nautakjötinu eða bjórglas á föstudegi og það hefur aldrei verið neitt vandamál þótt áfengisverslanir séu lokaðar á sunnudögum fyrir viðstaddan.

Fyrirlestrar gera lítið, því miður. Þrátt fyrir að í skóla komi fyrirlesarar og segi frá því að áfengi sé slæmt þá drekkur fólk samt áfram. Og það að áfengi væri komið í sölu í minni samfélögum í matvörubúðum á ekki eftir að koma í veg fyrir það að unglingar fái sér eldri aðila til að kaupa fyrir sig áfengi eða leiti uppi landasala fyrir næsta menntaskólaball. ÁTVR er opin frá mánudegi til laugardags á flestum stöðum, einstaka verslanir hafa lokað á laugardögum yfir vetrartímann, þ.e. frá september til maí. Þegar ég ætlaði að fara hérna upp í þessa umræðu pældi ég í hvort ekki væri nær að við værum að ræða vöruúrval til dæmis á matvörum í verslunum í smærri þéttbýlum, að allir gætu valið úr tugum tegunda af brauði og að í Bónus á Ísafirði væri ekki bara hægt að fá Euroshop-vörur og að allir Íslendingar, sama hvar þeir byggju, hefðu aðgang að góðu úrvali af ferskum og hollum matvörum í stað þess að ræða hérna áfengi og aðgang að því.

Sumir gætu talið að ég treysti ekki fólkinu í landinu, treysti ekki einstaklingnum til að takmarka neyslu þrátt fyrir aukið aðgengi. Jú, flestir geta stýrt neyslu sinni en í þjóðfélaginu er hópur sem getur það ekki. Eins og ég sagði áðan er markmiðið að takmarka neysluna og aðgengið, ekki banna hana, en mörkin þurfa að vera skýr. Við bönnum frekar margt í dag og takmörkum, en það er ekki út af því að við treystum ekki fólkinu. Við viljum ekki að fólk neyti matvæla með miklu magni af transfitusýrum eða reyki inni á skemmtistöðum og við viljum að fólk noti bílbelti. Við höfum þetta ekki inni í lögum út af því að við treystum ekki fólki til að reykja sig ekki í hel inni á skemmtistöðum eða borða yfir sig eða nota ekki belti þegar það keyrir, þetta eru bara mörk. Við erum að tala um lýðheilsumál og hér í rauninni kljást lýðheilsumál og viðskipti, og að mínu mati vegur lýðheilsan þyngra.

Um viðskiptin, margir hafa talað um að nýta þurfi peninginn sem fer í ÁTVR í dag í eitthvað annað og betra, og ég hugsaði: Er betra að sitja uppi með samfélagslega byrði í félags- og velferðarmálum, sem kosta sitt? Því að þeir peningar sem við tölum um og eru inni í ÁTVR núna, þeirri verslun, og sumir hafa minnst á í ræðum sínum, þeir verða ekki lengi að fara í önnur mál. Ef þeir færu til dæmis inn í félags- og heilbrigðiskerfið mun ganga hratt á þá og þeir munu kannski ekki allir fara í verkefni sem fyrir eru eða koma inn. Fleiri rannsóknir sýna að aukið aðgengi leiðir til aukinnar neyslu og aukinna vandamála, og þau vandamál kosta.

Ég talaði um markaðsráðstafanir fyrirtækja í þessum áfengisbransa áðan og greiðslur þeirra og áhrif á rannsóknir. Margir hafa bent á að þau séu að borga fyrir rannsóknir sem sýni það að áhrif áfengis séu ekki eins slæm og fram hefur verið haldið af öðrum aðilum. Margir hafa sagt við mig: Já, þau borga fyrir það. En ef rannsóknir sem sýna fram á hve skaðlegt áfengi er eru ekki sannar, hver er ávinningur þess fólks sem er þeim megin? Græðir einhver á því ef maður kaupir ekki lúxusvöru, sleppir því bara og sniðgengur hana?

Ef þessi vara, áfengi, kæmi ný á markaðinn í dag tel ég mjög hæpið að hún yrði leyfð miðað við það sem við vitum um skaðsemi hennar í dag. En margir hafa gert lítið úr því þegar maður talar um aðgengi að áfengi, að aðgengi verði aukið og áfengi gert sýnilegra, og líka þegar við erum að tala um börnin okkar.

Í janúar var samþykkt ný stefna í áfengis- og tóbaksmálum. Þar er fyrsti punkturinn að takmarka aðgengi að áfengi. Mér finnst mjög furðulegt ef við ætlum að fara að starfa gegn stefnu okkar. Við erum ekki að banna áfengi. Við höfum ekki bannað áfengi undanfarin ár og ÁTVR er okkar leið til þess að láta þetta ganga og ég tel þetta vera skástu leiðina. Jú, ÁTVR er sýnileg, eins og komið hefur fram í ræðum, þar sem búðir hafa glerveggi og vín eru borin á borð. En ég ætla að vona að fólk fræði börnin um skaðsemi áfengis. Fólk er kannski með sígarettupakkann uppi á borðum og þótt aðilinn reyki vonast hann til þess að barnið hans byrji ekki að reykja.

Svo fer maður að lesa þessi skjöl þar sem fram kemur að forvarnir skipta minna máli en menn hafa haldið áður. Þá er spurningin hvort við ætlum að fara að auka enn frekari sýnileika og enn frekara aðgengi en nú þegar er. Við getum stýrt þessu og þess vegna finnst mér að við eigum og það sé hlutverk okkar stjórnvalda að stýra því sem við getum og þar með til dæmis aðgengi að áfengi. Það er hlutverk okkar að hafa umsjón með málaflokkum sem þessum.

Á Norðurlandaráðsþingi í Helsinki árið 2012 voru samþykktar tólf tillögur. Með leyfi forseta, eru tillögur nefndarinnar þessar:

„Velferðarnefnd leggur til að Norðurlandaráð beini tilmælum til norrænu ráðherranefndarinnar um

1. að skipa starfshóp með fulltrúum frá öllum Norðurlöndum, einnig Álandseyjum, Færeyjum og Grænlandi, til að semja skjal til félags- og heilbrigðisráðherranna með tillögum, m.a. um að mótuð verði sjálfbær stefna í áfengis- og tóbaksmálum á Norðurlöndum fyrir tímabilið 2014–2020. Starfshópurinn vegi og meti þær aðgerðir sem vísindamenn telja vænlegastar til að draga úr áfengistengdum vandamálum.

2. að efla gagnreyndar rannsóknir á Norðurlöndum á tóbaks- og áfengisneyslu, ólæknandi sjúkdómum, krabbameini og lífsstílssjúkdómum.

3. að efla gagnreyndar rannsóknir á Norðurlöndum á börnum og ungmennum sem alast upp hjá einum eða fleiri umönnunaraðilum sem eiga við alvarlega áfengismisnotkun að stríða.

4. að efla gagnreyndar aðgerðir á Norðurlöndum, einnig Álandseyjum, Færeyjum og Grænlandi, til að draga úr áfengisneyslu og skaðlegum áhrifum áfengis.

5. að meta áhrif af algjöru banni við auglýsingum og markaðssetningu á áfengi sem beint er að ungu fólki á Norðurlöndum, einnig Álandseyjum, Færeyjum og Grænlandi.

6. að innleiða notkun áfengislása í bifreiðar atvinnubílstjóra á Norðurlöndum, þar á meðal Álandseyjum, Færeyjum og Grænlandi, einnig einstaklinga sem dæmdir hafa verið fyrir ölvun við akstur og gera forkönnun á innleiðingu notkunar áfengislása í öllum tegundum farartækja sem stefnumótandi aðgerð í áfengismálum.

7. að koma á virku samráði við stærstu fyrirtæki á Norðurlöndum um þekkingu á kostnaði vegna áfengis- og tóbaksneyslu og leita eftir stuðningi þeirra við Norræna líkanið fyrir aðgerðir í áfengismálum.

8. að kanna hvernig tryggja má innsýn hins opinbera í þrýstihópastarfsemi alþjóðlegra fyrirtækja á Norðurlöndum.

9. að leggja til að Norðurlöndin, einnig Álandseyjar, Færeyjar og Grænland, hefjist handa við að gera Norðurlönd tóbakslaus fyrir árið 2040.

10. að auka norrænt samstarf við SÞ, WHO og ESB um aðgerðir á Norðurlöndum, í Evrópu og um allan heim til að efla lýðheilsu með forvörnum gegn skaðlegum áhrifum áfengis- og tóbaksneyslu.

11. að semja norræna aðgerðaáætlun með því markmiði að draga úr áfengisneyslu í heiminum um 10% fyrir árið 2025 í samstarfi við alþjóðlegar stofnanir, samanber starf sem fram fer á vettvangi SÞ, WHO og ESB.

12. að beita sér fyrir því að leyfilegt áfengismagn í blóðinu verði takmarkað við 0,2 prómill við akstur á vélknúnum farartækjum á Norðurlöndum, einnig Álandseyjum, Færeyjum og Grænlandi.“

Þegar maður les yfir þessar tillögur erum við að reyna að taka á vanda nú þegar; áfengistengd vandamál, rannsóknir á neyslu og sjúkdómum, uppeldi barna hjá fólki með áfengissýki, skaðleg áhrif, markaðssetningar áfengis á börn, áfengi og akstur og áfengi í blóði. Þar sem ég starfa núna innan velferðarnefndar Norðurlandaráðs hlýt ég að spyrja mig þegar mál sem þetta kemur upp á þingi heima fyrir, hvort við ætlum ekki að virða þá stefnu sem við skrifuðum undir með öðrum Norðurlöndum, og þess er vænst að við fylgjum henni. Því get ég ekki sagt, einn, tveir og tíu að ég sé sammála þessu máli, og það getur kannski komið undarlega fyrir sjónir hjá mörgum að ég, 23 ára kona, vilji ekki leyfa áfengi í búðum þar sem allir sem aldur hafa til geta gengið inn og keypt sér. Ég get það bara einhvern veginn ekki, miðað við þá reynslu hjá krökkum sem í kringum mig hafa verið, vinum sem maður hefur misst inn í heim áfengisneyslunnar, fjölskyldumeðlimum og öðrum tengdum. Og margir sem ég hef talað við sem eiga ættingja er kljást við áfengissýki segja að þeir gætu ekki tekið undir það sem hér er lagt fram.

Eins og öllum öðrum hv. þingmönnum barst mér póstur frá foreldrafélögum og frá félögum sem báðu okkur um að standa gegn málinu. Mér finnst hér vera komin fram rök sem verða til þess að ég get ekki stutt það mál sem fyrir liggur.