144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[17:30]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á að nefna það við hv. þingmann sem ég hef margsinnis sagt hér í pontu að ég lít á áfengi sem dóp, ég lít ekki á að það sé einhver spurning um álit, ég lít á það sem staðreynd. Það er borðleggjandi staðreynd. Það er ekkert sem önnur ólögleg fíkniefni gera manni sem áfengi gerir ekki. Það veldur líkamlegu og andlegu tjóni, geðveiki, heimsku, fíkn og dauða. Þetta eru staðreyndir.

En ekki er þar með sagt að haftandi lagafyrirkomulag sé best til að bregðast við þeim vandamálum sem áfengisneysla veldur. Þetta tel ég vera einn lykilmisskilning samfélagsins að þegar eitthvað er slæmt þá hljóti bann að vera lausnin, ef ekki bann þá einhvers konar höft. Ég held að heimurinn sé flóknari en það.

Það sem mig langaði að spyrja hv. þingmann út í eru þau orð um forvarnir sem koma fram í athugun velferðarnefndar Norðurlandaráðs. Það er fullkomlega á skjön við reynslu okkar á Íslandi. Nú er óumdeilt að neysla unglinga hefur dregist saman, bæði á ólöglegum og löglegum fíkniefnum, svo sem áfengi, í um það bil 15 ár. Á sama tíma hefur aðgengi að áfengi víkkað mjög mikið út. Það eru miklu fleiri áfengisverslanir núna en nokkru sinni fyrr. Þær voru 13 árið 1987. Bjór var bannaður 1987 en samt fór neysla unglinga niður. Aðgengi hefur aukist. Ég velti þá fyrir mér með hliðsjón af því sem hv. þingmaður sagði um að forvarnir væru ekki jafn góðar og áður — eitthvað sem ég hefði tekið undir fyrir 15 árum þegar ég var í skóla — hvað veldur því að neysla unglinga á áfengi á Íslandi hefur farið hríðlækkandi í dágóðan tíma þrátt fyrir sífellt meira aðgengi?