144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[17:38]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég er auðvitað mjög ánægð með að drykkja unglinga minnki þrátt fyrir að fólk beri vínflöskur á borð og þrátt fyrir að við höfum búðir með glerveggjum við innganga í stórum verslunarmiðstöðvum. Unglingar geta fæstir sótt þá skemmtistaði sem eru opnir lengi, upp að því marki þegar þeir verða fullorðnir við 18 ára aldur, og þeir geta ekki keypt sér áfengi í vínbúðum.

Ég hugsa oft: Hvað var sagt við okkur þegar við vorum yngri og einhver fullorðinn fékk sér bjór og maður bað um sopa? Nei, þetta er fyrir fullorðna. — Nei, börn eiga ekki að fá þetta. — Nei, þetta er ullabjakk o.s.frv. Kannski viljum við líta á það sem ákveðna forvarnastarfsemi frá hendi þeirra fullorðnu sem í kringum okkur voru og það er þá vegna meiri fræðslu.

Eins og ég segi hef ég ekki sjálf gert rannsóknir á því hvað veldur. Ég vona bara að það séu þessi liðir sem hafi áhrif á áfengisneyslu.