144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[17:39]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Skoðum líka fullorðið fólk sem fer að neyta áfengis. Drykkja unglinga er einn þáttur af þessu. Það virðist óumdeilt að þótt unglingadrykkja hafi farið minnkandi þá hefur heildarneysla aukist. Einn af þeim þáttum sem skiptir máli þegar við erum að tala um áfengi sem vandamál er náttúrlega neyslumynstrið. Það að fara á skallann, á góðri íslensku, er miklu óhollara en að dreifa neyslunni yfir lengra tímabil. Það er eitt af því sem hefur gerst á Íslandi.

Það sem ég vildi spyrja þingmanninn um er að ef þetta frumvarp, sem felur í sér fimmfalt meira fjármagn til Lýðheilsustöðvar af áfengisgjaldinu meðal annars, sem er eyrnamerkt til forvarna, og ef heildaráhrifin af frumvarpinu leiða til þess að unglingadrykkja (Forseti hringir.) eykst ekki, þrátt fyrir aukið aðgengi því að það virðist ekki gerast með auknu aðgengi, og ekkert bendir til þess að neyslumynstur fullorðinna (Forseti hringir.) verði almennt verra, kannski betra einmitt þegar aðgengi eykst, er þingmaðurinn þá tilbúin að endurskoða stuðning sinn við frumvarpið?