144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[17:44]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla rétt að vona að það muni aldrei deyja út eða verða of gamaldags að horfa til rannsókna. Varðandi það sem hv. þingmaður spurði um áðan þá segir einmitt í því skjali sem ég vitna í að velferðarnefnd bendi á að mikilvægt sé að halda fast í gamla áfengisstefnu og styrkja hana og áhrif hennar frekar en að semja nýja. Við getum farið í endurskoðun á þeirri stefnu sem við fylgjum en það þarf alltaf ákveðið aðhald. Ég tel þetta bara vera einum of stórt skref til að við getum tekið það í þessu vetfangi.

Ég sé ekkert að því að hæstv. heilbrigðisráðherra komi hingað því að eins og ég vitnaði í í ræðu minni áðan þá setti hann fram nýja stefnu í áfengis- og tóbaksmálum í janúar. Fyrsti punkturinn er einmitt um takmarkað aðgengi að áfengi og mér þætti forvitnilegt fyrir mig, þar sem fólk kallar eftir því hvort ég ætli að endurskoða afstöðu mína, að fá að heyra í honum og vita hvort hann ætli þá líka að standa við þessa stefnu. Á Ísland að fara eftir þessari stefnu eða ekki? Þá fyrst get ég farið að íhuga hvort ég muni breyta skoðun minni á þessu máli.