144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[17:56]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tek fram þótt ég kveðji mér hljóðs um fundarstjórn forseta oftar en ég er vanur að hún hefur farið fram af hinni mestu ljúfmennsku. Það er ekki við forseta að sakast. Þessi dagskrárliður, réttur okkar þingmanna til að ræða fundinn, störfin og það hvernig honum er fram haldið o.s.frv., heitir þessu nafni, fundarstjórn forseta.

Ég tel býsna alvarlegt að heyra hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson koma aftur og aftur í ræðustól og tala með þeim hætti um þingmannamál eins og það dragi á einhvern hátt úr vægi þess að ráðherrar gegni þingskyldum sínum og komi til umræðna ef eftir því er leitað. Ég hef aldrei litið svo á að á því ætti að gera neinn greinarmun að því tilskildu að það væri efnislegt og málefnalegt sem væri farið fram á. Ráðherra sem á einhvern hátt fer með viðkomandi málaflokk eða hefur skyldur til að svara fyrir hann, og það hefur heilbrigðisráðherra svo sannarlega hér, á að svara. Hann fer með stefnuna (Forseti hringir.) sem við erum að ræða um að þetta gangi gegn. Þess vegna er fullkomlega málefnaleg og eðlileg krafa (Forseti hringir.) að hann svari fyrir það.