144. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2014.

fækkun nemendaígilda í framhaldsskólum.

[15:05]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Herför hæstv. menntamálaráðherra gegn framhaldsskólum í landinu vekur sífellt meiri furðu. Fyrirætlun hans um að fækka um 916 nemendur í framhaldsskólakerfinu mun bitna illa á skólunum og ákvörðun hans um að útiloka nemendur yfir 25 ára aldri frá bóknámi felur í sér, eins og varaformaður Kennarasambandsins sagði í hádegisfréttum í dag, algjöra kúvendingu á þeirri menntastefnu sem hefur verið rekin í landinu undanfarna áratugi og hefur haft að markmiði opið og sveigjanlegt aðgengi að almenna framhaldsskólakerfinu. Þessi breyting mun kippa rekstrargrundvellinum undan litlum, framsæknum framhaldsskólum á landsbyggðinni þar sem hlutfall þeirra sem eru yfir 25 ára aldri er frekar hátt.

Ekki nóg með það, hæstv. menntamálaráðherra býður ekki heldur upp á neinar nýjar lausnir, það er ekkert fjármagn að finna í fjárlagafrumvarpinu til símenntunarmiðstöðva eða frumgreinadeilda til að taka við fleiri nemendum. Jafnvel þótt boðið væri upp á það eru þeir kostir dýrari en hið almenna framhaldsskólakerfi. Það er ekki hægt að loka leið sem kostar 13 þús. kr. á önn og vísa fólki á úrræði sem kosta 225 þús. kr. á önn. Það er grundvallaraðför að jafnrétti til náms.

Ég tek bara dæmi af manni sem hafði samband við mig í síðustu viku sem vill undirbúa sig undir framhaldsnám, nám í Lögregluskólanum, og glímir nú við það samhliða vinnu á lágum launum að ljúka stúdentsprófi. Hann sér ekki fram á að geta gert það ef skilaboð hæstv. ráðherra um 225 þús. kr. skólagjöld á önn séu það sem við á að taka. Þar fyrir utan eru ekki einu sinni tækin til að taka við fólkinu vegna þess að skólarnir, frumgreinadeildirnar og símenntunarmiðstöðvarnar fá ekki fjármagn til þess að mæta auknum fjölda.

Ég spyr þess vegna: Skuldar hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra ekki Alþingi Íslendinga það að koma hingað inn með slíkar grundvallarbreytingar á menntastefnu þjóðarinnar, með slíka aðför að fullorðinsfræðslu, (Forseti hringir.) með slíka aðför að jöfnum tækifærum til mennta sem raun ber vitni? (Forseti hringir.) Hvar er þingumræðan sem liggur til grundvallar þessum gerræðislegu ákvörðunum hæstv. menntamálaráðherra?

(Forseti (EKG): Forseti tekur fram að klukkan í ræðustólnum er ekki virk en hún er hins vegar mjög vel virk í púlti forseta. Hann getur fylgst nákvæmlega með.)