144. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2014.

fækkun nemendaígilda í framhaldsskólum.

[15:12]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Þar sem hv. þingmaður nefnir hér Menntaskólann við Hamrahlíð og öldungadeildina þar er rétt að hafa í huga að vegna þeirra breytinga sem hafa orðið á framhaldsskólakerfinu og aukins námsframboðs fyrir þá sem eldri eru varð þróunin þar sú að nemendafjöldinn fór úr því að vera 700–800 nemendur í deildinni niður í það núna, þegar komið var að því að loka henni, einhvers staðar á bilinu 50–60. Þetta hefur ekki gerst vegna þeirrar ákvörðunar sem verið er að taka núna heldur vegna þess að á undanförnum árum hefur þróunin verið stóraukið námsframboð fyrir þá sem eru eldri en 25 ára.

Það er ekki tilviljunarkennt að benda á stöðuna á Norðurlöndunum. Í nokkrum þeirra verða nemendurnir einmitt að vera búnir að klára framhaldsskólanámið fyrir 24 ára eða 25 ára aldurinn. (ÁPÁ: Á að borga fólki fyrir að fara í nám?) Nú kallar hv. þingmaður fram í og spyr: Á að borga fólki fyrir að fara í nám? Þetta snýst ekki um það. Þetta snýst um það hvað gerist þegar fólk er orðið fullorðið. Á það þá að fara í framhaldsskóla með þeim sem eru 16 ára eða á það að leita annarra úrræða sem eru í boði? (Gripið fram í.) Þau tækifæri eru áfram til staðar. Það sem við erum að segja núna (Forseti hringir.) er að við erum búin að byggja hér upp kerfi þar sem gert er ráð fyrir því að það sé framhaldsskóli, símenntunarmiðstöðvar og aðgangsmöguleikar að háskólum (Forseti hringir.) án stúdentsprófs. Við eigum að nota þessi kerfi. (ÁPÁ: Fólk er búið að borga skatta.)