144. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2014.

losun gjaldeyrishafta.

[15:18]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin, virðulegi forseti. Það er ljóst að það þarf að hugsa hvert skref í þessu ferli. Ég skil hæstv. ráðherra þannig að það komi til greina að taka einhver skref til að losa um höft en halda höftum á stærri málum, sagði hæstv. ráðherra, þ.e. þá hugsanlega þrotabúum og stórum aflandskrónueignum.

Hættan er nefnilega fyrir hendi. Hér liggja enn þá alveg gríðarlegar eignir, bæði til lengri tíma og skemmri tíma þótt, eins og ég hef skilið það, tekist hafi að losa um skammtímakrónueignir. Þær hafa minnkað úr 700 milljörðum í 350 milljarða en samt liggja enn gríðarlegar langtímaeignir og skammtímaeignir þannig að losun hafta getur á mannamáli skapað rými fyrir stóra aðila til að fara með eignir sínar úr landi sem getur skapað verulega hættu fyrir almennt launafólk.

Ég tel mjög mikilvægt að regluverkið verði með þeim hætti að losun hafta hafi ekki áhrif, eins og prófessorinn orðaði það, á fjárhagslegt öryggi fólksins sem hér býr. Það sem mig langar þá að spyrja ráðherra um að lokum er: Er raunhæft að horfa fram á algjörlega frjálst flæði (Forseti hringir.) krónunnar að lokinni losun hafta? Erum við að horfa fram á einhvers konar höft hér til lengri tíma þó að ráðist verði í einhver skref?