144. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2014.

menningarsamningar landshlutasamtakanna.

[15:24]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Ég hef þá gert eitthvað jákvætt í dag, virðulegi forseti, ef ég mætti stuðla að því að hv. þingmaður sofi rótt um nætur. Auðvitað vona ég og vænti þess að þetta gangi allt eðlilega fyrir sig og hnökralaust.

Hvað varðar fjármuni til menningarstofnana, nokkurra grundvallarstofnana sem voru komnar að fótum fram að mínu mati og komnar í mjög erfiða stöðu, stofnanir eins og Þjóðleikhúsið, þá var ákveðið að þessu sinni að reyna að bæta aðeins í fjármagnið til þeirra stofnana, reyndar var tekin ákvörðun um að skerða ekki framlög til menningarmála að þessu sinni þrátt fyrir niðurskurðarkröfu. Þess vegna halda menningarsamningarnir sér hvað það varðar, þ.e. krónutöluna.

Vissulega er það rétt ábending hjá þingmanninum að það þýðir auðvitað einhver áhrif, að því gefnu að einhver verðbólga sé, þótt lág sé. En aðalatriðið er að það gangi vel að vinna samkvæmt nýja skipulaginu sem verið er að búa til. Menningarsamningarnir hafa sannað gildi sitt. Það er mjög góð tenging á milli ríkisvaldsins annars vegar og sveitarstjórnarstigsins hins vegar í kringum þá. Ég tek undir það sem hv. þingmaður sagði varðandi úttektir, sem allar benda til þess að þetta sé gott fyrirkomulag og við eigum að standa vörð um það.