144. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2014.

tillögur nýrrar stjórnarskrárnefndar.

[15:26]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Hæstv. forsætisráðherra hefur verið ötull talsmaður þess að þjóðin eigi að fá að eiga lokaorðið í stórum málum. Hann spilaði sjálfur eitt af lykilhlutverkum í því að tryggja að þjóðin fengi að kjósa um Icesave-samningana á sínum tíma.

Forsætisráðherra hefur skipað stjórnarskrárnefnd sem er að vinna frumvörp til breytingar á stjórnarskrá og hefur nefndin sett tvö frumvörp í forgang, tvö mál sem þjóðin studdi afgerandi í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012, fyrir tveimur árum.

Annað atriðið er að náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu séu lýstar þjóðareign. Þetta studdu 83% af þeim sem kusu. Hitt málið er það að kjósendur geti krafist þess að mál sem Alþingi hefur samþykkt fari í þjóðaratkvæðagreiðslu, að þjóðin fái málskotsréttinn líka til sín án milliliða. Það voru 73% sem voru fylgjandi þessu atriði.

Spurning mín til hæstv. forsætisráðherra er: Mun hann beita sér fyrir því að frumvörpin sem nefndin hans er að vinna fái framgöngu á þinginu?