144. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2014.

uppbygging Vestfjarðavegar.

113. mál
[15:35]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Haraldur Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég legg hér fram fyrirspurn til hæstv. innanríkisráðherra um áform um frekari uppbyggingu á Vestfjarðavegi 60 frá Þorskafirði að Skálanesi. Það gerðist nú í enn eitt skiptið, vil ég leyfa mér að segja, í sumar að sú vegalagning var sett í talsverða óvissu. Því finnst mér mikilvægt að við ræðum það sérstaklega hér og reynum að skýra þá mynd fyrir þeim sem eiga mikla hagsmuni undir því og fyrir okkur öll sem erum áhugasöm um, og teljum ríka og mikla hagsmuni fyrir því, að endurbætur á þessum vegi gangi sem hraðast fram.

Það deilir enginn um mikilvægi þessarar vegalagningar. Ekki eru stórar deilur um forgangsröðun í þeim efnum, en sá vegarkafli sem hér um ræðir, oft nefnd Teigsskógsleið, hefur í langan tíma verið í óvissu. Það hefur einfaldlega orðið vegna þess að menn hafa nýtt sér þau úrræði sem umhverfið býður upp á. Þegar menn eru á móti eða þegar mismunandi sjónarmið eru uppi í málunum hafa menn nýtt sér þau úrræði sem eru til staðar, bæði fyrir dómstólum og á öðrum vettvangi, til að koma andstöðu sinni fram. Við sitjum svolítið uppi með það að það eru ekki allir sem átta sig á því hver staða málsins raunverulega er.

Það er megintilgangur minn með þessari fyrirspurn, sem ég tek þó fram, herra forseti, að var samin áður en innanríkisráðherra greip aftur til þess að reyna að skýra myndina. Hæstv. ráðherra hefur á undanförnum vikum unnið að því að átta sig á stöðunni og koma málinu í betri farveg en það hefur verið í í langan tíma.

Jafnframt vil ég spyrja ráðherra að því hver tímaramminn sé, hvers við getum vænst í þeim efnum. Það er einn hlutur sem skiptir miklu máli ef við ætlum að skýra þessa mynd. Hvað taka úrræðin langan tíma sem meðal annars eru fluttar fréttir af í fjölmiðlum í dag um svokallaða endurupptökuleið?

Til viðbótar spyr ég hvort á sama tíma og verið sé að huga að þeirri leið sem meðal annars hefur komið fram í fjölmiðlum verði undirbúin önnur úrræði til að flýta megi því að hægt verði að komast í þær framkvæmdir sem liggur svo mikið á að koma áfram.