144. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2014.

uppbygging Vestfjarðavegar.

113. mál
[15:38]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina um þetta mál sem við höfum nú verið að vinna með og ræða um á undanförnum vikum og mánuðum og svo sem á undanförnum árum og jafnvel áratugum. Þetta mál hefur, eins og ég nefndi í upphafi, verið undir sérstakri skoðun að undanförnu, þ.e. uppbygging þessa vegar eða þessa kosts sem við þekkjum öll, enda brennur málið á mörgum og ekki síst á Vestfirðingum.

Því er til að svara að samkvæmt samgönguáætlun, eins og þingið þekkir, voru framkvæmdir á þessu svæði áætlaðar frá árinu 2016 en undirbúningur átti að standa árið 2015. Við þekkjum öll þær deilur sem verið hafa um þetta vegarstæði. Svo maður sé alveg heiðarlegur og einlægur í því þá sér svo sem ekki alveg fyrir endann á því þrátt fyrir mikla vinnu að undanförnu.

Eins og við þekkjum og ræddum hér á hinu háa Alþingi kom ákvörðun frá Umhverfisstofnun í september síðastliðnum þar sem því var hafnað að taka þessa nýju veglínu — sem við viljum kalla nýja enda hefur henni verið breytt talsvert — um Teigsskóg í umhverfismat. Í framhaldi af því hefur farið fram mikil vinna í samstarfi innanríkisráðuneytisins og umhverfisráðuneytisins þar sem þingmenn Norðvesturkjördæmis, Vegagerðin og sveitarstjórnarfulltrúar Reykhólahrepps hafa í samráði rætt og reynt að fara yfir næstu skref í málinu.

Virðulegi forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka þingmönnum allra þessara flokka sem komið hafa að vinnunni og gert hana auðveldari og skipulagðari fyrir okkur öll.

Í þessum hópi var ákveðið að málsmeðferðin yrði í stórum dráttum sú að Vegagerðin óski eftir endurupptöku á úrskurði Skipulagsstofnunar frá árinu 2006, en fram hefur komið, af hálfu þeirrar stofnunar, að sú leið sé hugsanleg innan ramma gildandi laga um mat á umhverfisáhrifum. Fallist stofnunin á endurupptöku þarf Vegagerðin í framhaldi af því að meta umhverfisáhrif og Skipulagsstofnun síðan að gefa álit á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Þá kæmi það síðan til sveitarstjórnar að hafa ákvörðunarvald um framkvæmdir.

Hv. þingmaður spyr um tímafrestina í þessu. Þá get ég líka útskýrt hvers vegna ákveðið var að fara í þetta endurupptökuferli. Það er í fyrsta lagi vegna þess að það er talið taka skemmstan tíma. Það er talið að málið skýrist fyrr í þeirri leið en í öðrum þeim leiðum sem í boði voru, sem voru þær að kæra niðurstöðuna eða fara beint í undirbúning og jafnvel framlagningu þingmáls. Það var skoðun þessa hóps eftir þá vinnu að farsælast væri að hefja þetta endurupptökuferli og láta reyna á það, enda gætum við mögulega að einhverju leyti haldið okkur innan þess tímaramma sem ákveðinn var í upphafi.

Á meðan á þessu mun standa munum við halda áfram að ræða við aðila á svæðinu, rýna aðrar mögulegar leiðir og einnig skoða þær leiðir sem færar eru hvað varðar lagasetningu. Ástæðan fyrir því að við gerum það er sú einarða skoðun þeirrar sem hér stendur — og ég held reyndar meiri hluta þingheims — að lausnir á þessu viðfangsefni á þessu svæði verði að finnast sem fyrst. Þess vegna viljum við halda öðrum leiðum opnum. En niðurstaðan af því mikla samráði sem verið hefur að undanförnu var alveg skýr og lýtur að því að farsælast sé á þessum tímapunkti að óska eftir endurupptöku á úrskurði Skipulagsstofnunar á sínum tíma.

Ég ítreka það sem ég hef áður sagt um málið og tengist auðvitað byggðaþróun í landinu almennt og stöðu samgangna. Ég er þeirrar skoðunar — með mikilli virðingu fyrir verkefnum í öllum landshlutum sem bíða mjög mörg í samgöngumálum — að þetta sé eitt brýnasta verkefnið sem verði að klára. Það er í raun algjörlega nauðsynlegt ef við ætlum að halda því fram, ekki bara á tyllidögum heldur líka á hverjum einasta degi, að vænlegt sé að búa á Vestfjörðum, líkt og á öðrum svæðum á landinu, skapa sér þar atvinnutækifæri og eiga þar framtíð. Þessi samgöngubót er mjög mikilvægur þáttur í því.