144. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2014.

uppbygging Vestfjarðavegar.

113. mál
[15:43]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég er akkúrat ósammála síðasta ræðumanni, hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni, í þessum efnum. Mér finnst mjög mikilvægt að það skipulagsferli sem er í gangi og sá ferill sem hafinn er hafi sinn gang og að þingið sé einmitt ekki að ráðast inn í slíka atburðarás og reyna að fara að fram hjá því ferli sem við höfum sett okkur í þessum efnum.

Það kom mér ánægjulega á óvart í nýlegri ferð samgöngunefndar um Barðaströnd og Vestfirði hversu miklar framfarir hafa orðið í vegasamgöngum á Barðaströnd á undanförnum fimm, sex árum. Það verður að halda því til haga. Það er verið að þvera þar tvo firði. Það sem vekur mér furðu, vegna þess að í mínum huga koma aðallega tvær leiðir til greina, er af hverju ekki er hafist handa nú þegar við að þvera Þorskafjörð. Það mundi halda tveimur ef ekki þremur möguleikum opnum og yrði strax mikil vegabót. Ég vara hins vegar við þeirri naumhyggju að eina leiðin til þess að lagfæra (Forseti hringir.) vegasamgöngur við Vestfirði sé að fara í gegnum Teigsskóg. Það er alls ekki svo.