144. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2014.

starfsstöðvar og þjónusta sýslumanna í Norðausturkjördæmi.

233. mál
[15:54]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Þegar við þingmenn fórum í kjördæmaviku nýlega heimsóttum við m.a. sýslumenn og almannavarnastöðvar og ræddum málin og stöðuna. Þar var ýmsum áhyggjum lýst. Eins og hæstv. ráðherra man eflaust í umræðu um breytingu á lögum um sýslumenn og lögreglu hafði ég efasemdir um að þjónustan yrði með sambærilegum hætti og verið hefur og þær efasemdir hafa frekar styrkst en hitt. Þar af leiðandi langar mig að spyrja þeirra spurninga sem hér hafa verið settar niður á blað um þessar breytingar.

Í fyrsta lagi vil ég spyrja hvernig breytingunum miðar. Ég tiltek Norðausturkjördæmi í fyrirspurninni, sem er mitt kjördæmi, en ég held að þetta eigi nú við um flest önnur kjördæmi. Þar kom fram að tíminn sem fram undan væri til þess að koma breytingunum á væri farinn að styttast í annan endann og komu fram efasemdir um að það næðist svo vel væri.

Ég spyr einnig hvort þjónusta sýslumanna verði svipuð og nú eftir þessar breytingar, hvort fjárveitingar í fjárlagafrumvarpi 2015 nægi sýslumannsembættunum til að veita sambærilega þjónustu og hvort tryggt verði að löglærðir fulltrúar verði á þeim starfsstöðvum.

Nú liggur fyrir í fjárlagafrumvarpinu, þrátt fyrir að búið sé að aðgreina sýslumenn og lögreglumenn, að miðað við skipanina núna er um örlitla lækkun á fjármunum að ræða. Ég vil spyrja hvort það sé fólgið eingöngu í því að það fækkar hausum, þ.e. sýslumönnum, en um leið fækkar löglærðum fulltrúum.

Í bókunum bæjarráða og bæjarstjórna fyrir norðan og austan, þar sem ég hef fylgst með, hafa komið fram miklar áhyggjur af því hvernig þeim er ætlað að reka starfsemi sína. Aðilar eins og bæjarráð Fjarðabyggðar, Norðurþing og samband sveitarfélaganna hafa allir ályktað og hafa af þessu áhyggjur þar sem þeir telja að fé sé ekki nægjanlegt til að sinna starfseminni. Ég hef haft af því fregnir, og bæjarráð Fjallabyggðar hefur t.d. bókað það hjá sér, að til standi að fækka störfum hjá embætti sýslumanns á Siglufirði og þar verði ekki löglærður fulltrúi.

Mig langar til að fá svör við þessum spurningum. Þetta er auðvitað mjög víðfeðmt svæði og langar vegalengdir á milli starfsstöðva og ljóst að það verður skerðing miðað við þetta, líka miðað við það sem hæstv. ráðherra ræddi, samkvæmt því sem fram kemur hjá bæjarfélögunum og eins og kom fram í ræðum á þingi, að á þessum starfsstöðvum yrðu löglærðir fulltrúar. (Forseti hringir.) Ég vona að hæstv. ráðherra hafi svör við spurningum mínum.