144. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2014.

starfsstöðvar og þjónusta sýslumanna í Norðausturkjördæmi.

233. mál
[16:02]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Eins og fram kom í máli málshefjanda varðar þetta mál öll kjördæmi. Þetta er mál sem pólitísk sátt var um en framkvæmdin skiptir þó gríðarlega miklu máli.

Mig langar að blanda mér inn í umræðuna vegna þess að það hefur verið svolítið hringl varðandi hvar eigi að vera sýslumenn og hvar eigi að vera lögreglustjórar, að einhverjar breytingar verði gerðar.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hvaða rök eru á bak við þær ákvarðanir? Hvert hefur samráðið verið? Eigum við ekki von á því að fram komi greinargerð með hverri staðsetningu fyrir sig? Sums staðar hafa stóru sveitarfélögin verið valin og annars staðar alls ekki, eins og á Vesturlandi þar sem Akranes, langstærsta sveitarfélagið, er hvorki með sýslumann eða lögreglustjóra. Ákveða embættismennirnir það, eins og skilja mátti á hæstv. ráðherra? Lagafrumvarpið gerði ráð fyrir því að það væru fyrst og fremst landshlutasamtökin og sveitarfélögin sem mundu ákveða það.

Svo langar mig að frétta hvað líður (Forseti hringir.) hinum nýju verkefnum sem færa á til sýslumannsembætta samkvæmt frumvarpinu.