144. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2014.

starfsstöðvar og þjónusta sýslumanna í Norðausturkjördæmi.

233. mál
[16:03]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég lýsi ánægju minni með að hún fullyrði það hér að þetta eigi ekki að hafa þær breytingar að löglærðir fulltrúar verði ekki á þeim starfsstöðvum sem missa sýslumenn. Mig langar samt að vitna í bæjarráðsfund Fjallabyggðar 16. október, sem var núna fyrir helgina, þar sem fjallað var um drögin að reglugerðunum. Vitnað var í fund Eyþings 15. október þar sem sýslumaðurinn á Húsavík, sem nefndur var áðan, upplýsti stjórn og bæjarstjóra Fjallabyggðar um að ætlunin væri að fækka um eitt stöðugildi á sýsluskrifstofunni á Siglufirði í kjölfar umdæmisbreytinga og skertra fjárframlaga.

Það fer þá ekki saman það sem hæstv. ráðherra segir hér og það sem fram kom í máli sýslumanns sem nú hefur verið ráðinn. En ég vona það svo sannarlega að á endanum komi þetta til hæstv. ráðherra og að hún muni þurfa að gefa samþykki sitt.

Mig langar aðeins að spyrja, af því að hér var talað um fagþekkingu og háskólamenntun, að þeim störfum ætti ekki að fækka, ef ég hef skilið ráðherrann rétt. Nú getur verið til fagþekking innan þessara embætta hjá fólki sem búið er að starfa til fjölda ára án þess að það hafi háskólamenntun. Ég nefni það til að vera viss um að við séum sammála um það.

Það virðast samt sem áður vera miklar áhyggjur mjög víða og sýslumenn eru farnir að tala með þeim hætti að þeir þurfi að skera niður þar sem fjárveitingar séu ekki nægar. Það kemur líka til vandi vegna aðgreiningar lögreglu og sýslumanna, t.d. á Seyðisfirði þar sem ferjusiglingar eru náttúrlega eins og við þekkjum. Þar er ekki lögregla eða sýslumaður í dag. (Forseti hringir.) Það eru því töluverðar breytingar að eiga sér stað sem ekki virðist vera gert ráð fyrir í fjárlögum að sögn.