144. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2014.

starfsstöðvar og þjónusta sýslumanna í Norðausturkjördæmi.

233. mál
[16:06]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég ítreka það sem ég hef sagt áður í umræðunni og það kemur fram í lögunum. Þau voru samþykkt þannig að þessar sameiningar ættu ekki að leiða til uppsagna starfsfólks, þessar breytingar eiga ekki að gera það, og eftir þeim lögum á að vinna. Það er það upplegg sem við höfum haft. Það var ein af röksemdafærslunum fyrir því að um verkefnið næðist góð sátt. Ég legg því mikla áherslu á að menn haldi sig við það og vinni í samræmi við það ákvæði laganna.

Það var ekkert aðgreint þar á milli faglærðra starfsmanna eða þess hvers konar menntun þeir hafa, það var ekkert mismunandi eftir því. Talað var um að starfsmönnum yrði ekki sagt upp á grundvelli breytinganna þó að starfsmenn gætu búið sig undir það að einhverjar breytingar kynnu að verða á störfum þeirra. Það er vegna þess að sýslumenn og lögreglustjórar á hverjum stað hafa ákveðið frelsi til að gera breytingar á því og eins vegna þess, eins og hv. þingmaður nefndi, að við erum auðvitað að aðskilja þessi verkefni.

Varðandi það sem rætt er hér um staðsetningar gáfum við út til upplýsingar fyrir hv. þm. Guðbjart Hannesson, við gáfum út drög að reglugerð þar sem við skiptum niður svæðunum. Í framhaldi af því höfum við átt samráð við landshlutasamtökin og sveitarfélög á hverjum stað. Sum landshlutasamtök hafa sameiginlega komið með niðurstöðu um hvar þau telja best að skrifstofunum sé niður komið, þ.e. aðalstöðvunum. Í sumum tilvikum hefur verið farið eftir því. Síðan hafa verið gerðar ákveðnar breytingar, þ.e. í umræðunni eru ákveðnar breytingar, þær hafa ekki verið botnaðar, og það er að hluta til vegna ráðlegginga frá ríkislögreglustjóra sem hefur gert ákveðnar athugasemdir við fyrirkomulagið eins og það var. Við höfum því verið að skoða það, en að stærstu leyti hafa þær breytingar sem til umræðu eru og hafa ekki verið botnaðar verið gerðar vegna þess að komið hefur fram annaðhvort mjög afdráttarlaus afstaða frá ákveðnum svæðum, ég nefni Vestfirði í því sambandi, þar sem var lögð áhersla á að lengra væri á milli aðalstöðva lögreglustjórans og sýslumannsins, eða önnur sveitarfélög hafa komið með rök sem hefur verið talin ástæða til að taka mið af. Það er því ekkert breytt í því sem fram kom í lögunum á sínum tíma, að reglugerð um þessar (Forseti hringir.) staðsetningar skyldi unnin í samráði við landshlutasamtök og sveitarstjórnir á hverjum stað, en á endanum auðvitað er ákvörðunin og ábyrgðin ráðherra.