144. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2014.

menntun íslenskra mjólkurfræðinga.

188. mál
[16:08]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Elín Hirst) (S):

Herra forseti. Ég hef lagt fram skriflega fyrirspurn til mennta- og menningarmálaráðherra um menntun íslenskra mjólkurfræðinga. Svo virðist sem það sé vandkvæðum bundið, og hefur verið um nokkurt skeið, fyrir Íslendinga að mennta sig í mjólkurfræðum, en það er svo sannarlega menntun sem við þurfum á að halda, við Íslendingar, sem ætlum okkur stóra hluti bæði í nútíð og framtíð í matvælaiðnaði. Eins tel ég að við þurfum að lyfta verknámi á Íslandi á þann stall sem það á skilið og mjólkurfræði er einmitt slíkt nám.

Borið hefur á því hér á landi að ekki er til fólk með fagþekkingu í ákveðnum iðngreinum svo sem í málmsmíði og öðru og þarf því að fá fólk utan úr heimi til að sinna þeim störfum. Ég tel í tengslum við fyrirspurn mína um mjólkurfræðina að við séum í raun og veru að leggja allt of mikla áherslu á bóknámið eða þá leið sem svo er kölluð í staðinn fyrir að lyfta verknáminu meira upp. Þar held ég að séu möguleikar fyrir margt af því unga fólki sem nú er að ákveða hvað það vill leggja fyrir sig í framtíðinni. Það vantar eitthvað til að gera þá tegund náms meira aðlaðandi, vegna þess að nú til dags virðist fólk ekki sjá neitt annað fyrir sér en stúdentspróf og svo helst að leggja fyrir sig bóklegt háskólanám, á meðan á þessu sviði eru svo gríðarlega mikil tækifæri til framtíðar. Einnig ef við hugsum um það að greind er svo fjölþætt gáfa, ekki er þar með sagt að allir þurfi að vera góðir einungis á bókina, menn geta verið greindir á svo gríðarlega margan hátt, t.d. verið flinkir í höndunum, í tónlist eða íþróttum o.s.frv.

Mig langar að nota tækifærið til að beina ljósinu að mjólkurfræðingunum. Hvernig er menntun íslenskra mjólkurfræðinga háttað? Getur það nám einungis farið fram í Danmörku og hvernig gengur samstarfið við Dani í því sambandi?