144. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2014.

menntun íslenskra mjólkurfræðinga.

188. mál
[16:19]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Sem fulltrúi landbúnaðardeildarinnar í Samfylkingunni verð ég að segja að þetta er miklu merkilegra mál en mig óraði fyrir þegar ég las fyrirspurnina. Mjólkurfræðingar sinna auðvitað grundvallargrein við mjólkurframleiðslu hér á landi og án þeirra getum við ekki verið. Hæstv. ráðherra upplýsir það að frá 2011 hafi engir nýir nemar farið frá Íslandi til þess að nema þessi fræði í Danmörku, þangað sem þeir hafa sótt undanfarna áratugi. Að vísu kemur það fram að enn þá eru leifar af gamla samningnum og það eru fjórir sem halda til náms á honum núna í haust og það eru þá hinir síðustu. Það má því kannski leiða getum að því að það blasi við þurrð mjólkurfræðinga innan örfárra ára.

Ég get vel tekið undir með hv. þm. Haraldi Benediktssyni um að það er sennilega æskilegt að senda þá og sækja námið til útlanda, en ég spyr hæstv. menntamálaráðherra: Hvernig ætlar hann að bregðast við því sem blasir við, að skortur verður á þessari undirstöðugrein innan örfárra ára?