144. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2014.

menntun íslenskra mjólkurfræðinga.

188. mál
[16:21]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Elín Hirst) (S):

Herra forseti. Ég vil þakka menntamálaráðherra kærlega fyrir svör við öllum þessum spurningum sem hann las hér skýrt og greinilega.

Það sem er náttúrlega mikið áhyggjuefni er að það eru engir nýir íslenskir mjólkurfræðingar að fara út í þetta nám. Ég tek heils hugar undir þær hugmyndir hæstv. ráðherra að við þurfum að kanna leiðir hjá öðrum löndum til þess að ungt fólk geti farið inn á þessa námsbraut sem ég held að sé mjög góð, þýðingarmikil og arðvænleg fyrir samfélag okkar.

Enn fremur var gott að fá það fram í umræðunni að námið er það sérhæft að menn sjá ekki fram á að menntunin fari fram á Íslandi. Það er matsatriði og ég get að mörgu leyti tekið undir með hv. þm. Haraldi Benediktssyni þegar hann segir að það sé eitt af því góða við íslenskan mjólkuriðnað að mjólkurfræðingar fari utan og nemi og fái fagþekkingu að utan sem þeir komi með heim og við njótum hér á Íslandi.

Að lokum langar mig til þess að fagna því mjög að menntamálaráðherra tók vel í hugmyndir mínar eða orð mín um meiri áherslu á verkmenntun í þessu landi þar sem ég tel að séu gríðarlegir og spennandi og skemmtilegir möguleikar fyrir ungt fólk sem nú situr og veltir fyrir sér hvernig það ætlar að haga framtíð sinni.

Að lokum þakka ég kærlega ungum manni í Búðardal sem kom þessu máli með mjólkurfræðingana á framfæri við mig.