144. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2014.

ADHD-teymi geðsviðs Landspítala.

247. mál
[16:25]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. ADHD-samtökin hafa um árabil barist fyrir aukinni þjónustu við einstaklinga með ADHD. Árið 2013 var stofnað sérstakt teymi á geðsviði Landspítala og hófst þá loksins skipulögð opinber þjónusta við fullorðna einstaklinga með ADHD. Vinna teymisins felst í skimun, greiningu, meðferð og útskrift. Í klínískum leiðbeiningum landlæknis er mælt með þessu vinnulagi. Um 5% barna eru með ADHD og 3–5% fullorðinna, að vísu eru ekki til almennilegar tölur um greiningu fullorðinna eins og mál mitt ber vitni um.

Fullorðnir einstaklingar með ADHD, sem ekki fá lyf og/eða aðra meðferð, eru ekki öfundsverðir. Þeir eiga oft við námsörðugleika að stríða og ljúka því síður háskólanámi en aðrir, vinna undir getu og lifa við kvíða. Það segir sína sögu að um 40–65% fanga eru með ómeðhöndlað ADHD. Skipulögð þjónusta er því nauðsynleg fyrir lífsgæði þessara einstaklinga og er samfélaginu öllu til hagsbóta.

Bent hefur verið á að notkun methylfenidat-lyfja sé hvergi meiri en hér á landi en taka verður tillit til þess að það hefur verið eina úrræðið hér á landi fyrir fólk sem er með ADHD. Fólk sem þarf nauðsynlega á þessum lyfjum að halda þarf að búa við þá óþolandi fordóma að lyfin séu í raun fíknilyf sem fljóti út úr kerfinu að óþörfu. Þetta er þó að breytast og má segja að landlæknir hafi viðurkennt ábyrgð heilbrigðiskerfisins þegar embættið bendir á þörf fyrir miðstýringu lyfjaávísana á vettvangi ADHD-teymisins til að stemma stigu við lyfjaávísunum lyfjanna til fíkla.

Árin 2013 og 2014 var fjárheimild ADHD-teymisins 40 milljónir. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2015 er ekki gert ráð fyrir fjárframlögum til teymisins. Því liggur fyrir að óbreyttu að starfsemi þess leggist af um áramót. Það væri gríðarleg afturför fyrir sjúklingahóp sem hefur árum saman barist fyrir aukinni þjónustu.

Ég vil því spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra eftirfarandi spurninga: Hyggst ráðherra tryggja áframhaldandi fjárveitingu til ADHD-teymis Landspítala? Hefur ráðuneytið metið árangur teymisins? Hvaða meðferðarúrræði munu koma í stað þeirrar þjónustu sem teymið hefir veitt ef starfsemi þess verður hætt? Að lokum: Liggur fyrir mat á kostnaðarauka vegna aukinnar lyfjanotkunar sem ætla má ef starfsemi teymisins verður hætt?