144. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2014.

ADHD-teymi geðsviðs Landspítala.

247. mál
[16:33]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég lagði grannt við hlustir en það var ekki fyrr en seinast sem ég heyrði að hæstv. heilbrigðisráðherra gerir ráð fyrir því að teymið starfi áfram, en þó er ekki alveg vitað á hvaða formi. Því ber að fagna. Það er alveg ljóst að þetta teymi kostar ekki neitt miðað við hvað það mundi kosta að gera ekki neitt. Það væri miklu kostnaðarsamara fyrir samfélagið að takast ekki á við vanda fullorðinna með ADHD. Við vitum að meiri hluti eða drjúgur hluti fanga er með ADHD. Maður spyr sig: Að hve miklu leyti mætti koma í veg fyrir það með viðlíka teymi og nú starfar? Ég held við þurfum að fara vel yfir það áður en þetta er skorið af.