144. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2014.

ADHD-teymi geðsviðs Landspítala.

247. mál
[16:34]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er ástæða til að halda því til haga að þegar ADHD-teymið var sett af stað var það gert til að tryggja faglegan farveg og rétt þeirra sem þurfa á lyfjum að halda vegna ADHD. Það var verið að reyna að tryggja regluverkið í kringum það. Raunar voru einnig framlög til ýmissa annarra þátta sem tengdust þessum sjúkdómi. Það hefur aftur á móti spillt mjög fyrir eins og kom ágætlega fram hjá málshefjanda, hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, að í umræðunni á tímabili réðu ákveðnir fordómar og ákveðin viðhorf þegar verið var að berjast gegn misnotkuninni. En einmitt þess vegna er svo mikilvægt, til að taka af allan vafa, að á bak við slíka þjónustu eins og hér er veitt sé rétt greining. Þeir fái lyf sem þurfa á þeim að halda og fullnægjandi utanumhald sé um þá þjónustu sem til staðar er.

Ég treysti á að hv. fjárlaganefnd taki á málinu og merki ákveðna fjárveitingu til viðbótar á þennan lið til að starfsemin, (Forseti hringir.) sem er til þess að gera ný, geti haldið áfram.