144. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2014.

ADHD-teymi geðsviðs Landspítala.

247. mál
[16:39]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka umræðuna sem hefur farið fram um mjög mikilvæga starfsemi. Ég tek undir það með hv. fyrirspyrjanda að mjög mikilvægt er að hafa þetta vel skipulagt og vel skilgreinda faglega þjónustu við fólk sem er með þá greiningu sem um ræðir.

Mynd mín af þessu þegar ég kem að því að fjármagna þetta mikilvæga verkefni á þann hátt sem við höfum gert, þ.e. vera með þetta sem einn lið einhvers staðar inni í ráðuneytinu, er í mínum huga ekki ásættanleg vegna þess að ég tel verkefnið miklu brýnna og mikilvægara en það. Það er rétt sem hv. þm. Björt Ólafsdóttir nefndi áðan, 40 milljónir er ekki há fjárhæð. Ég bendi á að Landspítalinn er að velta 50 milljörðum í rekstri og 40 milljónir í þeim stabba eru ekki há fjárhæð, 40 milljónir er ekki há fjárhæð af 1.700 millj. kr. viðbótarfjárveitingu. Ráðuneytið hefur verið í þeirri stöðu á sama tíma að skera niður í umfangi sínu þannig að það er óeðlilegt í mínum huga að fjármagna hana með þeim hætti að taka þetta sem sérstakan lið innan ráðuneytisins og veita út til Landspítalans. Ég tel miklu eðlilegra að reyna að búa svo um hnútana, og ég er að reyna að svara spurningu hv. þingmanns um hvernig það yrði gert, að samið yrði við Landspítalann sérstaklega um það hvaða þjónustu hann á að veita og hvers virði hún á að vera. 40 milljónir eiga ekki að vera nein fyrirstaða í þeim efnum. Það er ekki fjárhæðin, alls ekki.

Til að svara hv. þm. Álfheiði Ingadóttur get ég svarað því til að ég hef enga ætlan aðra en þá að tryggja að þessi starfsemi og sá þáttur sem ADHD-teymið hefur sinnt haldi áfram í þjónustu við þann sjúklingahóp sem um ræðir. Það hlýtur að vera sameiginleg skoðun okkar og stefna. Hvernig það verður nákvæmlega gert er ég ekki í færum til þess að segja frá, en ég upplýsi (Forseti hringir.) það að ég er að vinna að þeim þáttum með starfshópi velferðarráðuneytisins, Sjúkratryggingum og landlæknisembættinu.