144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Það hefur verið rætt hér á undanförnum vikum eða allt frá því að þing kom saman og fjárlagafrumvarp lá fyrir hvað stæði til að skera mikið niður í menntamálum. Það á að fækka nemendum, það á að takmarka aðgang annarra að námi og það á að fækka kennurum. Þetta er það sem skólameistarar fást við þessa dagana og leita viðbragða við.

Við erum með Landspítala sem er að grotna niður í höndunum á okkur og engin áform stjórnvalda um að bregðast við nema þá með því að gámavæða það sem ekki er hægt að nýta í dag í húsinu. Það á sem sagt að gámavæða hluta Landspítalans.

Mér er sagt að á borði hæstv. heilbrigðisráðherra séu plön um að einkavæða sjúkraflutninga, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Það á að auka hlut sjúklinga í kostnaði við heilbrigðiskerfið.

Það eru engir peningar settir í samgönguframkvæmdir, miðað við það sem hæstv. innanríkisráðherra sagði í fjölmiðlum um helgina, og er jafnvel reiknað með að loka þurfi flugvöllum vegna þess peningaleysis sem hennar ráðuneyti hefur við að glíma í þeim efnum.

Samfélagið virðist vera meira og minna í uppnámi. Verkföll og átök eru fram undan á flestum sviðum. Þá berast fréttir af því að það séu til peningar til að kaupa ný vopn fyrir lögregluna, hríðskotabyssur og hálfsjálfvirkar byssur, af sömu fjárlögum og gera ekki ráð fyrir því að börnum sé boðið upp á framhaldsskólanám hér og að fullorðnu fólki sé sömuleiðis úthýst úr framhaldsskólanámi. Í sömu fjárlögum er gert ráð fyrir því að hægt sé að kaupa einhver hundruð nýrra hríðskotabyssna og hálfsjálfvirkra skammbyssna fyrir lögregluna.

Ég neita að trúa því að það hafi safnast slíkur söfnuður saman innan þessara tveggja stjórnmálaflokka að þeim öllum finnist þetta allt í lagi. Ég höfða til framsóknarmanna sérstaklega og spyr hæstv. ráðherra og hv. þingmenn Framsóknarflokksins: Finnst ykkur þetta allt í lagi? Komuð þið hingað til þings (Forseti hringir.) í þessum erindagjörðum? Eða ætlið þið að spyrja við fótum og (Forseti hringir.) taka rögg á ykkur (Forseti hringir.) og stöðva þessa bölvuðu vitleysu (Forseti hringir.) sem þetta svo sannarlega er?