144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegur forseti. Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í gær fyrrverandi bankastjóra Landsbankans og fyrrverandi framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs bankans af ákæru sérstaks saksóknara um umboðssvik. Sigurjón Þ. Árnason hefur nú verið sýknaður í tveimur málum sérstaks saksóknara, VÍS-menn voru sýknaðir í sínu máli og því ekki áfrýjað og Lárus Welding hefur verið sýknaður. Helsti dómurinn sem ég man eftir sem tengist sérstökum saksóknara og hruninu er í Al Thani-málinu þar sem sakfellt var, en auk þess hefur fengist sakfelling í smærri málum.

Fleiri mál sem tengjast fyrrverandi bankastjóra Landsbankans liggja á borði sérstaks saksóknara, auk málsins frá því í gær, auk þess sem málinu frá því í gær verður mögulega áfrýjað til Hæstaréttar. Við spyrjum því að leikslokum.

Embætti sérstaks saksóknara var komið á fót til að rannsaka grun um refsiverða háttsemi sem tengist bankahruninu á Íslandi árið 2008, hvort sem hún tengist starfsemi fjármálafyrirtækja, annarra lögaðila eða einstaklinga. Núna fimm árum og tæpum 6 milljörðum kr. síðar, sem er kostnaðurinn við embættið, er árangurinn helst til rýr.

Þá vakna spurningar: Var embættið nógu vel hugsað í byrjun? Var farið í vanhugsaða vegferð? Var þetta friðþæging vegna ástandsins sem ríkti hér í árslok 2008 og vegna þeirrar miklu reiði sem ríkti í þjóðfélaginu? Af hverju fóru aðrar þjóðir ekki þessa sömu leið og stofnuðu hjá sér embætti sérstaks saksóknara til að rannsaka meintar misgjörðir bankamanna og annarra?

Eða liggur vandamálið kannski frekar hjá okkur sjálfum hér innan dyra? Var það regluverk og sú lagaumgjörð sem bankamenn unnu eftir svo götótt að sakfelling í þessum stóru málum var nánast ómöguleg? Erum við að setja sérstakan saksóknara og starfsmenn hann í nánast vonlausa stöðu þegar kemur að rannsókn mála? Þurfum við að líta í eigin barm?

Er ég mótfallinn embætti sérstaks saksóknara? Nei, ég er fylgjandi því. Við búum hins vegar í réttarríki og hver og einn er saklaus uns sekt er sönnuð. Ákvörðun um saksókn er alvarlegur hlutur (Forseti hringir.) og ákæru á ekki að gefa út nema taldar séu yfirgnæfandi líkur á að sakfelling fáist. Málsókn (Forseti hringir.) hefur ekki bara áhrif á einstaklinga heldur heilu fjölskyldurnar. Því má ekki gleyma.