144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Nú er um eitt og hálft ár síðan þessi hægri ríkisstjórn tók við völdum. Það virðist allt stefna á verri veg fyrir þjóðina frá þeim væntingum sem þjóðin hafði þegar hún kaus hana fyrir einu og hálfu ári, að nú færu innviðir samfélagsins að byggjast upp og efnahagsbatinn skilaði sér til þjóðarinnar. Nei, við blasir dökk mynd þessa dagana í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár.

Ég ætla að nefna hérna nokkur atriði sem þjóðin virðist ekki hafa efni á. Við höfum ekki efni á því að byggja Landspítalann upp. Við höfum ekki efni á því að reka framhaldsskóla landsins. Við höfum ekki efni á samgönguframkvæmdum. Við höfum ekki efni á snjómokstri. Við höfum ekki efni á hafnarframkvæmdum. Við höfum ekki efni á að gera út flugvelli; það er boðað að loka eigi einhverjum flugvöllum. Við höfum ekki efni á að reka Hafrannsóknastofnun, ekki efni á að gera út Landhelgisgæsluna, ekki að halda úti þjóðarútvarpi eins og Ríkisútvarpinu, ekki að halda úti vinnumarkaðsaðgerðum og greiða langtímaatvinnulausum bætur, ekki að jafna örorkubyrði lífeyrissjóða eða greiða í starfsendurhæfingu. Við höfum ekki efni á að efla Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Og við höfum ekki efni á að bæta stöðu þeirra verst settu í þjóðfélaginu, heldur leggjum við á þá hærri matarskatt.

Hverju höfum við efni á? Hver er forgangsröðunin? Við höfum efni á að leggja 0,5 milljarða í uppbyggingu höfuðstöðva NATO. Við höfum efni á að lækka veiðigjöld á stórútgerðina, afnema auðlegðarskatt og nú síðast höfum við efni á að vélbyssuvæða lögregluna. Við ætlum síðan að dreifa 80 milljörðum hist og her sem gagnast ekki þeim verst settu. Þeir verða áfram í sömu sporum.

Ég spyr: Höfum við efni á að hafa þessa ríkisstjórn lengur við völd? Nei, við höfum ekki efni á því sem þjóð. Meðan Róm brennur berjast frjálshyggjumenn á Alþingi fyrir að koma brennivíni í búðir. Hugsið ykkur hver forgangsröðunin er. Það er eitthvað mikið að í þjóðfélagi þar sem forgangsröðunin er svona. Við virðumst ekki (Forseti hringir.) hafa efni á neinu sem þjóðfélag þegar allt stefndi á betri veg fyrir (Forseti hringir.) rétt einu og hálfu ári síðan.